Enski boltinn

„Allt sem er satt í dag gæti verið lygi eftir þrjár vikur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benjamin Sesko fagnar öðru tveggja marka sinna fyrir Manchester United.
Benjamin Sesko fagnar öðru tveggja marka sinna fyrir Manchester United. epa/PETER POWELL

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að gagnrýni Garys Neville, fyrrverandi fyrirliða liðsins, hafi haft áhrif á slóvenska framherjann Benjamin Sesko.

United keypti Sesko frá RB Leipzig fyrir tæplega 74 milljónir punda í sumar. Hann hefur skorað tvö mörk í fyrstu ellefu leikjum sínum fyrir Rauðu djöflana og að mati Nevilles hefur hann ekki farið illa af stað í samanburði við Bryan Mbeumo og Matheus Cunha sem komu einnig til United fyrir tímabilið.

Amorim segir að ýmislegt sé til í gagnrýni Nevilles en mikilvægt sé að horfa á stóra samhengið. Sesko sé ungur og reynslulítill og sé enn að aðlagast nýrri deild.

„Ég er rólegur en ekki hann,“ sagði Amorim á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Tottenham í dag.

„Ég veit hvernig hlutirnir eru í fótbolta og hann mun basla. Það er eðlilegt. Hann er ekki með neina reynslu héðan. Fyrst segja allir að þú sért svo góður, næsta stjarna og þú heyrðir það um Sesko. Síðan kemurðu til félags þar sem er erfitt að spila. Ef þú stendur þig ekki í hverri viku færðu gagnrýni frá goðsögnum félagsins, álitsgjöfum og fjölmiðlum og stundum á hún rétt á sér.“

Amorim hefur fulla trú á að Sesko komist á beinu brautina eftir byrjunarörðugleika.

„Auðvitað vill enginn heyra að þú hafir átt í vandræðum en það er satt í hans tilfelli. Tökum utan um það. Það er erfitt að heyra það en þetta er ekki persónulegt. Þetta er skoðun sem breytist eftir þrjár vikur. Allt sem er satt í dag gæti verið lygi eftir þrjár vikur,“ sagði Amorim.

United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig eftir tíu leiki, jafn mörg og Tottenham sem er í 6. sætinu.

Leikur Tottenham og Manchester United hefst klukkan 12:30 og verður sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×