Handbolti

Með 32 mörk í síðustu þremur leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson hefur komið með beinum hætti að samtals 106 mörkum í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Viggó Kristjánsson hefur komið með beinum hætti að samtals 106 mörkum í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. getty/Harry Langer

Viggó Kristjánsson leiddi Erlangen til sigurs á Eisenach, 24-23, í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Seltirningurinn hefur skorað grimmt að undanförnu.

Viggó skoraði tólf mörk í sigrinum nauma hjá Erlangen í gær. Sex marka hans komu úr vítaköstum.

Í síðustu þremur leikjum Erlangen hefur Viggó skorað samtals 32 mörk. Hann skoraði tíu mörk í 33-26 sigri á Wetzlar og sömuleiðis tíu mörk í tapi fyrir Flensburg, 36-30.

Viggó er í 5. sæti yfir markahæstu leikmenn þýsku úrvalsdeildarinnar með 69 mörk í níu leikjum, eða 7,7 mörk að meðaltali í leik.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur einnig gefið 37 stoðsendingar í þýsku deildinni á tímabilinu en aðeins fimm hafa gefið fleiri. 

Tveir þeirra leika með Viggó í landsliðinu. Haukur Þrastarson, leikmaður Rhein-Neckar Löwen, trónir á toppi stoðsendingalistans með 52 slíkar og Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem spilar fyrir Evrópumeistara Magdeburg, er í 5. sætinu með 38 stoðsendingar.

Maðurinn sem Viggó deilir stöðu hægri skyttu með í landsliðinu, Ómar Ingi Magnússon, er í 3. sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn þýsku deildarinnar. Hann hefur skorað áttatíu mörk í níu leikjum.

Erlangen keypti Viggó frá Leipzig um síðustu áramót. Hann átti hvað stærstan þátt í að Erlangen bjargaði sér frá falli á síðasta tímabili. Liðið vann síðustu þrjá leiki sína og endaði einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Betur hefur gengið hjá Erlangen á þessu tímabili. Liðið er í 11. sæti deildarinnar með tíu stig, sjö stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×