Innlent

Flestum þykir Guð­rún og Sig­mundur hafa staðið sig illa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skora hæst meðal þeirra sem telja formenn hafa staðið sig illa á kjörtímabilinu.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skora hæst meðal þeirra sem telja formenn hafa staðið sig illa á kjörtímabilinu.

Flestum þykir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafa staðið sig vel á kjörtímabilinu meðal formanna stjórnmálaflokkanna en fæstir telja Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknar hafa staðið sig vel. Meirihluti telur svo Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Sjálfstæðisflokksins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins hafa staðið sig illa á kjörtímabilinu.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu um frammistöðu formanna flokkanna á þessu kjörtímabili. Spurt var hversu vel eða illa fólki finnist formenn stjórnmálaflokka hafa staðið sig á þessu kjörtímabili. Sextíu prósent telja Kristrúnu hafa staðið sig vel, 46 prósent Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar og eru aðrir formenn með lægri tölur í þeim flokki.

Þannig telja 24 prósent Ingu Sæland formann Flokks fólksins hafa staðið sig vel, 21 prósent Sigmund Davíð, 14 prósent Guðrúnu Hafsteinsdóttur hafa staðið sig vel og síðan eru einungis 12 prósent sem telja Sigurð Inga hafa staðið sig vel á þessu kjörtímabili. Könnunin fór fram dagana 8. til 15. október og voru svarendur 1232 talsins.

Maskína

Fleiri ánægðir með Kristrúnu og Þorgerði en Ingu

61 prósent svarenda telja bæði Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins og Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Sjálfstæðisflokksins hafa staðið sig illa. Þar á eftir kemur Sigurður Ingi en 58 prósent telja hann hafa staðið sig illa.

Tæpur helmingur telur Ingu Sæland hafa staðið sig illa eða 47 prósent, 33 prósent telja Þorgerði Katrínu hafa staðið sig illa en einungis 22 prósent telja Kristrúnu hafa staðið sig illa.

Meðal þeirra sem telja formennina hafa staðið sig í meðallagi er Sigurður Ingi efstur með 30 prósent og Inga Sæland með 28 prósent. Þá telja 25 prósent Guðrúnu hafa staðið sig í meðallagi vel, 21 prósent Þorgerði Katrínu, Kristrún í 19 prósentum og Sigmundur Davíð í 18 prósentum.

Kjósendur þriggja flokka óánægðastir með sína formenn

Ánægja með störf formannanna er að miklu leyti í takti við flokkslínur og hvað svarendur myndu kjósa ef gengið yrði til Alþingiskosninga nú. Athyglisverð er hinsvegar óánægja þeirra sem kusu flokkana í síðustu Alþingiskosningum.

Þannig telja einungis 1,6 prósent sem kusu Samfylkinguna síðast Kristrúnu hafa staðið sig illa, 6,4 prósent kjósenda Viðreisnar í síðustu kosningum telja Þorgerði Katrínu hafa staðið sig illa en 22,4 prósent kjósenda Flokks fólksins eru óánægðir með Ingu Sæland.

Um tíu prósent kjósenda Miðflokksins í síðustu Alþingiskosningum telur Sigmund Davíð hafa staðið sig illa á kjörtímabilinu. Á meðan telja 31,1 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn Guðrúnu Hafsteinsdóttur hafa staðið sig illa. Þá telja 37,6 prósent kjósenda Framsóknar Sigurð Inga hafa staðið sig illa á þessu kjörtímabili. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×