Sport

Kon­ráð Valur valinn knapi ársins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Konráð Valur tekur við verðlaununum.
Konráð Valur tekur við verðlaununum. aðsend / LH

Konráð Valur Sveinsson var valinn knapi ársins 2025 á uppskeruhátíð Landsambands hestamannafélaga um nýliðna helgi.

Knapi ársins er alla jafnan sá knapi sem þykir hafa hvað breiðastan árangur á árinu en verðlaun voru veitt í fleiri flokkum. Að baki valinu er nefnd skipuð fulltrúum úr stjórn Landssambands hestamannafélaga, Gæðingadómarafélagi Landssambands hestamannafélaga, Hestaíþróttadómarafélagi Íslands, Félagi tamningamanna auk fulltrúa fjölmiðla. 

Konráð Valur, eða „konungur kappreiðanna á Íslandi“ eins og hann er kallaður af LH, átti frábært ár í skeiðgreinum. Hann setti á árinu heimsmet í 250 metra skeiði, er tvöfaldur Íslandsmeistari í skeiðkappreiðum, vann tvo Reykjavíkurmeistaratitla og er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins.

Konráð var einnig valinn Skeiðknapi ársins.

Ásmundur Ernir Snorrason var valinn Íþróttaknapi ársins.

Ásmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á Hlökk frá Strandarhöfði, samanlagður Íslandsmeistari í fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla ásamt því að sigra fjölda greina á Reykjavíkurmeistaramóti. Hann náði þeim eftirtektarverða árangri á Hlökk að ríða oftar en einu sinni með yfir 9 í meðaleinkunn, í bæði T1 og T2, á árinu.

Kristján Árni Birgisson og Védís Huld Sigurðardóttir voru valin efnilegustu knapar ársins.

Kristján varð á árinu tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki þegar hann sigraði 100 m skeið og 250 m skeið á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 100 m skeiði á Kröflu og gæðingaskeiði ungmenna á Súlu frá Kanastöðum.

Védís varð á árin tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki, í tölti og fjórgangi á Ísak frá Þjórsárbakka. Hún sigraði einnig tölt og fjórgang á Íslandsmótinu á Ísaki.

Jón Ársæll Bergmann hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ungmennaflokki.

Jón Ársæll varð á árinu þrefaldur heimsmeistari í ungmennaflokki á Hörpu frá Höskuldsstöðum. Hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og samanlagðar fimmgangsgreinar á mótinu ásamt því að ná frábærum árangri á fjölda móta hér á Íslandi sumarið 2025.

Strandarhöfuð var valið keppnishestabú ársins.

Strandarhöfuð hefur á undanförnum árum stimplað sig inn sem eitt sterkasta ræktunarbú keppnishrossa í hestamennskunni hér á landi. Kórónan í ræktuninni er án efa Hlökk frá Strandarhöfði sem á árinu varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum auk þess að standa upp úr í töltsýningum í T1 og T2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×