Fótbolti

Frændinn mætti með egg og gerði allt vit­laust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Luis Rubiales, fyrrum formaður spænska knattspyrnusambandsns, áritar bók sína „Matar a Rubiales“.
 Luis Rubiales, fyrrum formaður spænska knattspyrnusambandsns, áritar bók sína „Matar a Rubiales“. Getty/Francisco Guerra

Kynning á nýrri bók Luis Rubiales fór algjörlega úr böndunum í gærkvöldi en Rubiales er fyrrum formaður spænska knattspyrnusambandsins sem hrökklaðist úr starfi eftir að hafa kysst leikmenn spænska landsliðsins í verðlaunaathöfn þegar liðið varð heimsmeistari.

Kastað var eggjum í Luis Rubiales, fyrrverandi forseta spænska knattspyrnusambandsins, á fimmtudag á viðburði til að kynna nýja bók hans.

Rubiales sagði af sér sem forseti RFEF í september 2023 eftir mikla reiði vegna hegðunar hans í kjölfar sigurs Spánar á heimsmeistaramóti kvenna, þar á meðal óumbeðins koss á leikmanninn Jenni Hermoso, en fyrir það var hann sakfelldur fyrir kynferðisbrot fyrr á þessu ári.

Hann hefur nú skrifað bók, „Matar a Rubiales“ (Að drepa Rubiales), sem hann sagði á fimmtudag að væri „fyrir þá sem vilja vita sannleikann.“

Bókarkynningin, sem fór fram á María de Molina-götu í Madríd, var trufluð á fimmtudagskvöld þegar einstaklingur kastaði þremur eggjum í Rubiales á meðan fyrrverandi stjórnandinn var í viðtali fyrir framan áhorfendur.

„Ekki hafa áhyggjur, þetta er í lagi,“ heyrðist einhver í salnum segja þegar Rubiales neyddist til að stöðva ræðu sína.

Á því augnabliki kastaði þessi einstaklingur nokkrum eggjum sem beint var að Rubiales eins og sjá hér fyrir neðan.

Rubiales sagði síðar að maðurinn væri frændi hans.

„Hann er frændi minn, hann heitir Luis Rubén,“ sagði hann. „Hann er óróaseggur og er veikur. Ég held að hann hafi verið handtekinn. Við munum sjá hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur. Þetta er til skammar,“ sagði Rubiales.

Myndbandsupptökur sýndu Rubiales reyna að takast á við einstaklinginn, sem var fjarlægður af svæðinu af öryggisvörðum.

„Ég vissi ekki hvað hann var með í höndunum,“ sagði Rubiales við Radio Marca á eftir. „Ég hélt að hann gæti verið með byssu ... Ég var ekki að hugsa um sjálfan mig.“

Rubiales er enn einn umdeildasti maðurinn í heimsfótboltanum. Í febrúar 2025 var hann sakfelldur fyrir kynferðisbrot vegna hins alræmda óumbeðna koss á Jenni Hermoso.

Í nýju bókinni heldur Rubiales því áfram að stofnanir, fjölmiðlar og stjórnmál hafi beitt hann ranglæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×