Lífið

Opnar sig um dulið fóstur­lát

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Árný Fjóla lýsir reynslu sinni af því að lenda í duldu fósturláti.
Árný Fjóla lýsir reynslu sinni af því að lenda í duldu fósturláti.

„Við lentum í þeirri leiðinlegu reynslu að ganga í gegnum fósturlát núna fyrir rétt rúmum tveimur vikum,“ skrifar listakonan Árný Fjóla Ásmundsdóttir í Instagram-færslu um dulið fósturlát sem hún og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson, gengu í gegnum. 

Árný Fjóla rekur aðdragandann að uppgötvuninni í myndbandi í færslunni og lýsir jafnframt reynslunni við að ganga í gegnum slíkt. Segist Árný vilja deila reynslunni fyrir aðra sem hafa lent í slíku eða munu kannski gera það.

Reyndist dulið fósturlát

Þau hjónin búa í Hveragerði og fóru í tólf vikna sónar á Selfossi þann 3. nóvember síðastliðinn þar sem sást lítið í fóstrið og fengu þau því tíma í Reykjavík strax í kjölfarið.

„Þar er greint fósturlát á sjöttu til sjöundu viku. Þetta er kallað dulið fósturlát vegna þess að það voru engin einkenni um að þetta væri að gerast. Það blæddi ekkert, enginn sársauki og ég var ennþá með væg óléttueinkenni, eins og á hinum meðgöngunum mínum, þannig okkur grunaði ekki hvað væri að gerast,“ segir Árný.

Vegna þess að fóstrið var enn svo lítið fór Árný í lyfjaúthreinsun sem hún segir hafa gengið vel.

Andlega heilsan enn að koma til

„Það sem mér fannst best í þessu var að við vorum búin að segja mörgum fjölskyldumeðlimum frá þessu þannig það var hægt að deila sorginni,“ segir hún.

Hún segir reynsluna hafa tekið mjög á dætur þeirra, sérstaklega fyrir þá eldri sem er sex ára. 

„Andlega heilsan er öll að koma til en það tekur ekki tíu daga að jafna sig eftir svona,“ segir Árný sem segist komin aftur til vinnu.


Tengdar fréttir

Þakka aðdáendum fyrir að hafa fjármagnað nýja húsið

Daði Freyr Pétursson og Árný Fjóla Ásmundsdóttir, Eurovisionpar og meðlimir í popphljómsveitinni Daða og gagnamagninu, hafa fest kaup á einbýlishúsi. Fjölskyldan flutti nýverið til Íslands eftir tíu ára dvöl í Berlín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.