Viðskipti erlent

Fjögurra billjóna hagnaður léttir fyrir fjár­festa

Samúel Karl Ólason skrifar
Jensen Huang, forstjóri Nvidia.
Jensen Huang, forstjóri Nvidia. AP/Lee Jin-man)

Fyrirtækið Nvidia, sem er verðmætasta félag heimsins, setti nýtt sölumet á síðasta ársfjórðungi en uppgjör félagsins er talið hafa dregið úr áhyggjum fjárfesta varðandi mögulega bólumyndun á sviði gervigreindar.

Á þriðja uppgjörsfjórðungi Nvidia, sem nær yfir ágúst, september og október, seldi fyrirtækið varning fyrir 57 milljarða dala og er það aukning um 62 prósent á milli ára. Hagnaður fyrirtækisins jókst um heil 65 prósent á milli ára og var 31,9 milljarðar dala.

Það samsvarar um fjórum billjónum króna (4.000.000.000.000).

Virði hlutabréfa Nvidia tók mikinn kipp upp á við eftir að uppgjörið var birt. Mest fór það upp í 6,5 prósenta hækkun en þegar þetta er skrifað stóð hækkunin í tæpum þremur prósentum.

Áhugasamir geta fundið uppgjörið og frekari upplýsingar hér á vef Nvidia.

Í frétt Wall Street Journal segir að fjárfestar hafi beðið eftir uppgjörinu með mikilli eftirvæntingu. Það hafi dregið töluvert úr áhyggjum þeirra af mögulegri bólumyndun á sviði gervigreindar. Nvidia er af mörgum talið vera eins konar kanarífugl í kolanámu tæknigeirans. Það er að segja að veikleikar á mörkuðum gervigreindar og tæknifyrirtækja í heild gætu fyrst sést á bókum Nvidia.

Nvidia framleiðir tölvubúnað, eins og örflögur og skjákort, sem er einkar vinsæll í gagnaver sem notuð eru til að keyra mállíkön heimsins.

Undanfarnar vikur hefur virði hlutabréfa stórra tæknifyrirtækja lækkað nokkuð vegna áhyggja fjárfesta af því að verið sé að verja allt of miklum peningum í tölvubúnað, gagnaver og aðra innviði í kapphlaupinu um gervigreind og að þessar fjárfestingar muni ekki skila hagnaði.

Áhyggjur þessar hafa einnig snúið að því hvernig þessar fjárfestingar hafa verið fjármagnaðar. Í mörgum tilfellum hefur það verið gert með þeim hætti að fyrirtæki eins og Nvidia, sem selja mikið af þessum innviðum, hafa fjárfest fyrir fúlgur fjár í fyrirtækjum sem kaupa af þeim.

Fyrr í þessari viku sögðu 45 prósent af stjórnendum alþjóðlegra fjárfestingasjóða í könnun Bank of America að gervigreindarbóla væri stærsta ógnin á fjármálamörkuðum þessa dagana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×