Hvað er að vera vók? Eva Hauksdóttir skrifar 22. nóvember 2025 08:32 Enska orðið „woke“ var upphaflega notað um það að vera vakandi fyrir félagslegu óréttlæti, vekja aðra til vitundar um þau viðhorf sem viðhalda óréttlæti og koma minnihlutahópum til hjálpar. Markmiðin eru göfug en í reynd hefur hreyfingin hin síðari ár ekki síður staðið í því að vakta þá sem grunaðir eru um óæskilegar skoðanir og voka yfir samfélagsumræðunni. Á Íslandi var þetta fólk lengst af kallað réttlætisriddarar eða „góða fólkið“ en undanfarið hefur borið mun meira á orðunum „vók“ og „vókistar“. Það þykja mér vondar þýðingar. Ég ætla að nota orðin „vok“ og „vákar“ enda held ég að þau orð séu nokkuð lýsandi. Er ekki bara gott að vera almennileg manneskja? Ég held að það sé rétt sem ágæt kona sagði í umræðum á Facebook í gær að „réttlætisriddarar“ eða „góða fólkið“ séu þrengri hugtök en vók og eigi frekar við um dyggðaflaggara þótt þetta sé oft sama fólkið. Sennilega eru engin skýr mörk þarna á milli. „Góða fólkið“ hefur verið notað um farísea nútímans, þá sem vilja vel og eru í raun og sann gott fólk en hafa ægilega þörf fyrir að koma því á framfæri hvað þeir séu nú miklu skárri eintök af mannkyninu en einhverjir aðrir. Vákar hafa sömu þörf en ganga lengra í hreintrúnaði og ímyndarpólitík. En er vákur er ekki bara almennileg manneskja? Felur vokið ekki einmitt í sér að vera svona ekki alveg sama um náungann, styðja aðgerðir sem stuðla að félagslegu réttlæti og koma minnihlutahópum til varnar þegar er ráðist á þá? Hvenær er maður bara almennileg mannneskja og hvenær vákur? Munurinn liggur að einhverju leyti í túlkun á orðum og atvikum og viðbrögðum við þeim. Hver er munurinn? Almennileg manneskja sýnir fólki sem tilheyrir minnihlutahópum sömu virðingu og tillitssemi og öðrum. Vákurinn vill að hið opinbera sjái til þess að allir verði jafnir, alveg sama hvað það kostar. Almennilegt fólk lætur til sín taka þegar það rekst á óréttlæti. Vákurinn vokir yfir fjölmiðlum og samfélagsumræðu í markvissri leit að óréttlæti, hatri, fórnarlömbum og sökudólgum. Krás á köldu svelli birtist honum í kvenfyrirlitningu, transfóbíu, fötlunarfordómum eða rasisma. Og þá er nú kroppað. Þegar einhver guðjóninn segir karlrembubrandara á samfélagsmiðli finnst almennilegum manni hann vera óttalegur bjáni eða jafnvel meinfýsinn. Hann skammar hann kannski eða reynir að rökræða við hann. Vákurinn lítur aftur á móti á ummælin sem hatursorðræðu, merki um bakslag í jafnréttismálum og sönnun um kerfisbundið misrétti gegn konum. Almennileg amma fer upp á háaloft að leita að gömlum bókum handa barnabörnunum. Hún rekst á 10 litla negrastráka. Hún brosir við því henni fannst bókin skemmtileg á sínum tíma en sleppir því að taka hana með niður. Það er bara óþarfi enda nóg af smekklegra barnaefni í boði. Þegar vákurinn finnur sömu bók í gömlu dóti birtir hann mynd af henni á Facebook til sönnunnar um hverskonar óbermi ólu upp kynslóð sem er „gegnsýrð af kynþáttahatri“. Þegar einhver lætur í ljós þá skoðun að þessi bók sé barn síns tíma og ekkert hættuleg, telur vákurinn það merki um að þjóðernishyggja sé í rífandi uppgangi. Almennilegur maður tekur þátt í umræðu á netinu um kynjuð og kynhlutlaus fornöfn. Einn þátttakandinn er transkona. Sá almennilegi notar það nafn sem hún hefur valið sér og talar um hana í kvenkyni. Það er bara sjálfsögð kurteisi og umræðan snýst ekkert um skilgreiningu hans á konu. Vákurinn tekur þátt í sömu umræðu en fyrst og fremst í þeim tilgangi að hanka hvern þann sem verður uppvís að „röngum“ skoðuðum á kynjamálum. Vákurinn telur sig ekki þurfa rök heldur felst málflutningur hans í því að saka þá sem telja að kynin séu tvö um vanþekkingu, ranghugmyndir og hatur. Almennilegt fólk vill að allir fái raunhæf tækifæri til að nýta hæfileika sína og þekkingu. Þótt fötlun komi óhjákvæmilega í veg fyrir aðgengi að tilteknum störfum megi fordómar ekki verða til þess að fólk sé útilokað frá möguleika á vinnu sem það getur sinnt. Vákar líta svo á að viðurkenning á því að fötlun skerði möguleika og lífsgæði sé hatur sem birtist m.a. í því að tala um fatlaða og sjúka, fremur en fólk með fötlun og sjúkdóma. Vákurinn vill að allir eigi að fá að vinna þau störf sem þeir vilja, hvort sem þeir geta það eða ekki og að samfélagið eigi að bera kostnaðinn af því að gera þeim það mögulegt. Upp í kok Vokið er samfélagsmein sem veldur því að margt almennilegt fólk er komið með ógeð á umræðum um félagslegt réttlæti. Fordæming orðanotkunar, sem vákar segja afhjúpa fordóma, heimsku og illt innræti, hefur ýmist þau áhrif að fólk dregur sig í hlé eða gefur skít í vokið og rís jafnvel gegn því. Vokið er ekki hugsjón heldur barátta baráttunnar vegna. Barátta sem þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að leyfa vákunum að finna svolítið til sín. Vokið einkennist af ofsa og ósanngirni sem yfirskyggir hið yfirlýsta markmið um vitundarvakningu um viðkvæma stöðu minnihlutahópa og kröfur um félagslegt réttlæti. Það er svo í meira lagi kaldhæðnislegt að þrotlaus viðleitni vákanna til að troða pólitískum rétttrúnaði ofan í kok almennings, hefur heldur betur snúist í höndum þeirra. Það er vokið sem kom Trump til valda í Bandaríkjum og það er vokið sem á heiðurinn af uppgangi Miðflokksins á Íslandi. Höfundur er lögfræðingur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Eva Hauksdóttir Mest lesið „Múslimahjörðin“ að taka yfir Ísland? Árni Þór Þórsson Skoðun Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefur okkur Lárus Bl. Sigurðsson Skoðun Bókun 35: Þegar Alþingi missir síðasta orðið Júlíus Valsson Skoðun Málið of stórt fyrir þjóðina Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Uppruni ADHD Óttar Guðmundsson Bakþankar Íslenskan í andarslitrunum Steingrímur Jónsson Skoðun Styttum nám lækna Haraldur F. Gíslason Skoðun Opið bréf vegna langvarandi einangrunar Ragnheiður Svava Þórólfsdóttir Skoðun Tímabært að koma böndum á gjaldskyldufrumskóginn Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Ahhh! Þess vegna vill Trump eignast Grænland! Ágúst Kvaran Skoðun Skoðun Skoðun Málið of stórt fyrir þjóðina Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefur okkur Lárus Bl. Sigurðsson skrifar Skoðun Bókun 35: Þegar Alþingi missir síðasta orðið Júlíus Valsson skrifar Skoðun „Múslimahjörðin“ að taka yfir Ísland? Árni Þór Þórsson skrifar Skoðun Ahhh! Þess vegna vill Trump eignast Grænland! Ágúst Kvaran skrifar Skoðun 35% aukning í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll Ásthildur Sturludóttir skrifar Skoðun Við erum hjartað í boltanum Ásgeir Sveinsson skrifar Skoðun Áramótaheit sem endast Sigrún Þóra Sveinsdóttir skrifar Skoðun Vernd hvala er þjóðaröryggismál Micah Garen skrifar Skoðun Tímabært að koma böndum á gjaldskyldufrumskóginn Hanna Katrín Friðriksson skrifar Skoðun Uppgjöf í barnamálum Bozena Raczkowska skrifar Skoðun Að óttast að það verði sem orðið er Helga Þórólfsdóttir skrifar Skoðun Börnin okkar eiga betra skilið en ókunnugar afleysingar Kristín Kolbrún Waage Kolbeinsdóttir skrifar Skoðun Að nýta atvinnustefnu til að móta hagvöxt Mariana Mazzucato skrifar Skoðun Villi er allt sem þarf Birgir Liljar Soltani skrifar Skoðun Börnin borga verðið þegar kerfið bregst Svava Björg Mörk skrifar Skoðun Ómissandi innviðir – undirstaða öryggis og viðnáms samfélagsins Sólrún Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Atvinnuþátttaka eldra fólks og sjálfbærni Halldór S. Guðmundsson,Kolbeinn H. Stefánsson skrifar Skoðun Mannasættir Teitur Atlason skrifar Skoðun ESB og Kvótahopp Eggert Sigurbergsson skrifar Skoðun Meirihluti vill lögfesta rétt til leikskólapláss Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Lesblinda til rannsóknar Guðmundur S. Johnsen skrifar Skoðun Í lok jólanna og upphafi nýs árs Gestur Valgarðsson skrifar Skoðun Heilsa og veikindadagar - nýtt ár og ný tækifæri Victor Guðmundsson skrifar Skoðun Styttum nám lækna Haraldur F. Gíslason skrifar Skoðun Vangaveltur um trú og aukinn áhuga ungs fólks á henni Gunnar Jóhannesson skrifar Skoðun Íslenskan í andarslitrunum Steingrímur Jónsson skrifar Skoðun Frá nýlendu til þjóðar: Lærdómur sem Íslendingar þekkja Bernharð S. Bernharðsson skrifar Skoðun Opið bréf vegna langvarandi einangrunar Ragnheiður Svava Þórólfsdóttir skrifar Skoðun Hinseginfræðsla er forvarnaraðgerð Kári Garðarsson skrifar Sjá meira
Enska orðið „woke“ var upphaflega notað um það að vera vakandi fyrir félagslegu óréttlæti, vekja aðra til vitundar um þau viðhorf sem viðhalda óréttlæti og koma minnihlutahópum til hjálpar. Markmiðin eru göfug en í reynd hefur hreyfingin hin síðari ár ekki síður staðið í því að vakta þá sem grunaðir eru um óæskilegar skoðanir og voka yfir samfélagsumræðunni. Á Íslandi var þetta fólk lengst af kallað réttlætisriddarar eða „góða fólkið“ en undanfarið hefur borið mun meira á orðunum „vók“ og „vókistar“. Það þykja mér vondar þýðingar. Ég ætla að nota orðin „vok“ og „vákar“ enda held ég að þau orð séu nokkuð lýsandi. Er ekki bara gott að vera almennileg manneskja? Ég held að það sé rétt sem ágæt kona sagði í umræðum á Facebook í gær að „réttlætisriddarar“ eða „góða fólkið“ séu þrengri hugtök en vók og eigi frekar við um dyggðaflaggara þótt þetta sé oft sama fólkið. Sennilega eru engin skýr mörk þarna á milli. „Góða fólkið“ hefur verið notað um farísea nútímans, þá sem vilja vel og eru í raun og sann gott fólk en hafa ægilega þörf fyrir að koma því á framfæri hvað þeir séu nú miklu skárri eintök af mannkyninu en einhverjir aðrir. Vákar hafa sömu þörf en ganga lengra í hreintrúnaði og ímyndarpólitík. En er vákur er ekki bara almennileg manneskja? Felur vokið ekki einmitt í sér að vera svona ekki alveg sama um náungann, styðja aðgerðir sem stuðla að félagslegu réttlæti og koma minnihlutahópum til varnar þegar er ráðist á þá? Hvenær er maður bara almennileg mannneskja og hvenær vákur? Munurinn liggur að einhverju leyti í túlkun á orðum og atvikum og viðbrögðum við þeim. Hver er munurinn? Almennileg manneskja sýnir fólki sem tilheyrir minnihlutahópum sömu virðingu og tillitssemi og öðrum. Vákurinn vill að hið opinbera sjái til þess að allir verði jafnir, alveg sama hvað það kostar. Almennilegt fólk lætur til sín taka þegar það rekst á óréttlæti. Vákurinn vokir yfir fjölmiðlum og samfélagsumræðu í markvissri leit að óréttlæti, hatri, fórnarlömbum og sökudólgum. Krás á köldu svelli birtist honum í kvenfyrirlitningu, transfóbíu, fötlunarfordómum eða rasisma. Og þá er nú kroppað. Þegar einhver guðjóninn segir karlrembubrandara á samfélagsmiðli finnst almennilegum manni hann vera óttalegur bjáni eða jafnvel meinfýsinn. Hann skammar hann kannski eða reynir að rökræða við hann. Vákurinn lítur aftur á móti á ummælin sem hatursorðræðu, merki um bakslag í jafnréttismálum og sönnun um kerfisbundið misrétti gegn konum. Almennileg amma fer upp á háaloft að leita að gömlum bókum handa barnabörnunum. Hún rekst á 10 litla negrastráka. Hún brosir við því henni fannst bókin skemmtileg á sínum tíma en sleppir því að taka hana með niður. Það er bara óþarfi enda nóg af smekklegra barnaefni í boði. Þegar vákurinn finnur sömu bók í gömlu dóti birtir hann mynd af henni á Facebook til sönnunnar um hverskonar óbermi ólu upp kynslóð sem er „gegnsýrð af kynþáttahatri“. Þegar einhver lætur í ljós þá skoðun að þessi bók sé barn síns tíma og ekkert hættuleg, telur vákurinn það merki um að þjóðernishyggja sé í rífandi uppgangi. Almennilegur maður tekur þátt í umræðu á netinu um kynjuð og kynhlutlaus fornöfn. Einn þátttakandinn er transkona. Sá almennilegi notar það nafn sem hún hefur valið sér og talar um hana í kvenkyni. Það er bara sjálfsögð kurteisi og umræðan snýst ekkert um skilgreiningu hans á konu. Vákurinn tekur þátt í sömu umræðu en fyrst og fremst í þeim tilgangi að hanka hvern þann sem verður uppvís að „röngum“ skoðuðum á kynjamálum. Vákurinn telur sig ekki þurfa rök heldur felst málflutningur hans í því að saka þá sem telja að kynin séu tvö um vanþekkingu, ranghugmyndir og hatur. Almennilegt fólk vill að allir fái raunhæf tækifæri til að nýta hæfileika sína og þekkingu. Þótt fötlun komi óhjákvæmilega í veg fyrir aðgengi að tilteknum störfum megi fordómar ekki verða til þess að fólk sé útilokað frá möguleika á vinnu sem það getur sinnt. Vákar líta svo á að viðurkenning á því að fötlun skerði möguleika og lífsgæði sé hatur sem birtist m.a. í því að tala um fatlaða og sjúka, fremur en fólk með fötlun og sjúkdóma. Vákurinn vill að allir eigi að fá að vinna þau störf sem þeir vilja, hvort sem þeir geta það eða ekki og að samfélagið eigi að bera kostnaðinn af því að gera þeim það mögulegt. Upp í kok Vokið er samfélagsmein sem veldur því að margt almennilegt fólk er komið með ógeð á umræðum um félagslegt réttlæti. Fordæming orðanotkunar, sem vákar segja afhjúpa fordóma, heimsku og illt innræti, hefur ýmist þau áhrif að fólk dregur sig í hlé eða gefur skít í vokið og rís jafnvel gegn því. Vokið er ekki hugsjón heldur barátta baráttunnar vegna. Barátta sem þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að leyfa vákunum að finna svolítið til sín. Vokið einkennist af ofsa og ósanngirni sem yfirskyggir hið yfirlýsta markmið um vitundarvakningu um viðkvæma stöðu minnihlutahópa og kröfur um félagslegt réttlæti. Það er svo í meira lagi kaldhæðnislegt að þrotlaus viðleitni vákanna til að troða pólitískum rétttrúnaði ofan í kok almennings, hefur heldur betur snúist í höndum þeirra. Það er vokið sem kom Trump til valda í Bandaríkjum og það er vokið sem á heiðurinn af uppgangi Miðflokksins á Íslandi. Höfundur er lögfræðingur.
Skoðun Börnin okkar eiga betra skilið en ókunnugar afleysingar Kristín Kolbrún Waage Kolbeinsdóttir skrifar
Skoðun Ómissandi innviðir – undirstaða öryggis og viðnáms samfélagsins Sólrún Kristjánsdóttir skrifar
Skoðun Atvinnuþátttaka eldra fólks og sjálfbærni Halldór S. Guðmundsson,Kolbeinn H. Stefánsson skrifar