Handbolti

Magdeburg fékk fimm­tán mörk frá Ís­lendingunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon hefur raðað inn mörkum á þessu tímabili.
Ómar Ingi Magnússon hefur raðað inn mörkum á þessu tímabili. Getty/Marco Wolf

Íslendingaliðið Magdeburg er á toppnum í þýsku deildinni eftir stórsigur á heimavelli sínum í dag. Gummersbach fagnaði sigri í Íslendingaslag.

Magdeburg vann þrettán marka sigur á Wetzlar, 33-20, og hefur þar með náð í 23 stig af 24 mögulegum í tólf fyrstu deildarleikjum tímabilsins. Staðan var 19-12 í hálfleik.

Íslensku strákarnir voru að skila í þessum leik. Ómar Ingi Magnússon skoraði 9 mörk, Elvar Örn Jónsson var með fjögur mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk.

Gísli var einnig með fjórar stoðsendingar en hinir tveir með eina hvor.

Ómar Ingi var markahæstur á vellinum en tvö af níu mörkum hans komu úr vítum. Hann stal íka tveimur boltum í vörninni.

Gummersbach vann sjö marka sigur á Leipzig, 34-27, í Íslendingaslag. Gummersbach var 19-12 yfir í hálfleik.

Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir lið Guðjóns Vals Sigurðssonar og Teitur Örn Einarsson var með eitt mark. Blær Hinriksson skoraði tvö mörk fyrir Leipzig.

Gummersbach er í þriðja sæti með nítján stig, fjórum stigum minna en topplið Magdeburg. Leipzig er í neðsta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×