Innlent

Foráttu­veður í kortunum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Vísir/Bjarni

Á fimmtudag mega íbúar á Suðaustur- og Austurlandi búast við miklu hvassiðri og snjókomu. Þá er stormi spáð við suðurströnd landsins, en útlitið er skárra fyrir Norðausturland og „ekkert ægilega slæmt“ fyrir vestanvert landið.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fór yfir veðurspána fyrir vikuna í kvöldfréttum Sýnar.

Spárnar líta ekki vel út fyrir vikuna?

„Þær hafa aðeins lagast fyrir landið í heild sinni, en það er spáð foráttuveðri á Suðausturlandi, og sunnanverðum Austfjörðum. Það hvessir þar strax fimmtudagsmorguninn og það má reikna með því að það verði aftakahvasst í Öræfunum og jafnvel undir Eyjafjöllum líka,“ segir Einar.

Þessu fylgi hríðarveður eða bleytuhríð, sem muni ná austur á firði. Útlitið sé skárra fyrir til dæmis Norðausturland og ekkert ægilega slæmt fyrir vestanvert landið.

„Þetta verður hvasst, við erum búin að upplifa svo mikið hægviðri og hæglátt veður undanfarnar vikur, þannig það verða viðbrigði, en ekki ofankoma eða úrkoma af ráði þar.“

Einar segir að hálkan hafi gert okkur lífið leitt undanfarna daga, sem hún eigi til með að gera þegar hitinn er í kringum frostmark og loftið rakt.

Í kvöld sé flughálka víða á suðurlandsundirlendinu og í Hvalfirði, og fleiri vegir muni verða flughálir eftir því sem líður á kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×