Innlent

Harður á­rekstur á Suður­landi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögreglan er á vettvangi.
Lögreglan er á vettvangi. Vísir/Vilhelm

Harður árekstur varð á gatnamótum Þorlákshafnarvegar og Þrengslavegar. Lokað var fyrir umferð á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig en nú hefur verið opnað aftur.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

„Þetta var harður árekstur tveggja bifreiða við gatnamótin þar sem beygt er upp í Ölfusi. Viðbragðsaðilar eru að athafna sig á vettvangi,“ segir Garðar Már Garðarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu.

Alls voru fimm í bílunum tveimur að sögn Garðars eru allir með meðvitund.

Auk lögreglunnar eru sjúkrabílar bæði frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og höfuðborgarsvæðinu og viðbragðsaðilar frá Brunavörnum Árnessýslu. Allir hafa verið fluttir af vettvangi til frekari skoðunar.

Tilkynning barst viðbragðsaðilum rúmlega tuttugu mínútur yfir þrjú. Unnið er að því að hreinsa veg og fjarlægja bílana. Tildrög slyssins verða rannsökuð.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×