Innlent

Bíða með að skipa lög­reglu­stjóra á Suður­nesjum á meðan nýs ríkislög­reglu­stjóra er leitað

Kjartan Kjartansson skrifar
Ákveðið var að fresta því að skipa lögreglustjóra á Suðurnesjum á meðan leitað er að eftirmanni Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur (t.v.) sem sagði óvænt af sér sem ríkislögreglustjóri í síðasta mánuði.
Ákveðið var að fresta því að skipa lögreglustjóra á Suðurnesjum á meðan leitað er að eftirmanni Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur (t.v.) sem sagði óvænt af sér sem ríkislögreglustjóri í síðasta mánuði. Vísir

Dómsmálaráðuneytið gerði hlé á umsóknarferli vegna embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum á meðan leit að nýjum ríkislögreglustjóra stendur yfir. Þrír mánuðir eru frá því að staðan á Suðurnesjum var auglýst.

Ekkert hefur frést af skipun lögreglustjóra á Suðurnesjum frá því að listi yfir umsækjendur var birtur um miðjan október. 

Dómsmálaráðuneytið staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að umsóknarferlinu hafi verið frestað á meðan umsóknarferli vegna skipunar ríkislögreglustjóra stendur yfir. Umsækjendur um embættið á Suðurnesjum hafi verið upplýstir um stöðuna.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir sagði skyndilega af sér sem ríkislögreglustjóri í kjölfar umfjöllunar um viðskipti embættis hennar við ráðgjafarfyrirtæki. Staðan hefur ekki verið auglýst til umsóknar ennþá.

Embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum losnaði þegar Úlfar Lúðvíksson sagði upp störfum í maí. Það gerði hann eftir að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, tjáði honum að embættið yrði auglýst í haust og samningur hans yrði ekki endurnýjaður.

Sex manns sóttu um stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum sem til stóð að skipa í um mánaðamótin, þar á meðal Margrét Kristín Pálsdóttir, settur lögreglustjóri á Suðurnesjum, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, staðgengill lögreglustjórans, og Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×