Innlent

Lengsta goshléið frá upp­hafi hrinunnar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Myndin er tekin af þarsíðasta gosi sem hófst og lauk þann 1. apríl.
Myndin er tekin af þarsíðasta gosi sem hófst og lauk þann 1. apríl. Vísir/Anton Brink

Hundrað og átján dagar eru síðan síðasta eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni lauk. Yfirstandandi goshlé er þar með orðið það lengsta frá því að goshrinan hófst á svæðinu í desember 2023.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vekur athygli á þessu í Facebookfærslu. Síðasta eldgos á Sundhnúksgígaröðinni hófst þann 16. júlí og lauk 5. ágúst. Áður hafði gosið í einn dag þann 1. apríl eftir 115 daga goshlé.

Veðurstofan greindi frá því fyrir viku síðan að landris og kvikusöfnun haldi enn áfram undir Svartsengi. Í byrjun október gerðu líkanreikningar ráð fyrir að ellefu milljón rúmmetrar af kviku hefðu safnast undir Svartsengi frá síðasta gosi, en í því gosi hlupu á bilinu ellefu og þrettán milljón rúmmetrar úr Svartsengi. Síðan í október hafa líkur á kvikuhlaupi og gosi verið auknar.

„Þessa stundina er í raun beðið eftir tíunda gosinu,“ segir í færslu hópsins, sem bendir á að kvikumagn undir Svartsengi væri nú á bilinu sextán og sautján milljón rúmmetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×