Sport

Stóð uppi sem sigur­vegari á krefjandi ári: „Var búið að vera svo erfitt“

Aron Guðmundsson skrifar
Ingeborg Eide Garðarsdóttir, íþróttakona ársins 2025 í vali ÍF
Ingeborg Eide Garðarsdóttir, íþróttakona ársins 2025 í vali ÍF Vísir/Lýður

Á krefjandi ári tókst kúlu­varparanum Inge­borg Eide Garðars­dóttur að setja nýtt Ís­lands­met í sínum flokki. Hún var í gær kjörin íþrótta­kona ársins 2025 í vali Íþrótta­sam­bands Fatlaðra.

Kúlu­varparinn Inge­borg Eide Garðars­dóttir og sund­kappinn Snævar Örn Krist­manns­son eru íþrótta­fólk fatlaðra árið 2025 en verð­launin voru veitt við há­tíð­lega at­höfn á Grand Hótel í gær.

Inge­borg setti nýtt Ís­lands­met á árinu 2025 í flokki F37 í frjálsum íþróttum. Metið setti hún á stóra sviðinu þegar hún keppti á Heims­meistaramóti IPC í frjálsum íþróttum sem haldið var í Nýju Delí á Ind­landi undir lok septem­ber. Þar kastaði Inge­borg í fyrsta sinn yfir tíu metra, nánar til­tekið 10,08 metra sem er nýtt Ís­lands­met í hennar flokki.

„Ég er stolt og mjög þakk­lát fyrir að fá þennan titil. Þetta er stærsta viður­kenning sem maður getur fengið fyrir þá vinnu sem maður hefur sett í íþróttina sína í ár,“ segir Inge­borg í sam­tali við íþrótta­deild.

Klippa: Stolt og þakklát eftir krefjandi ár

Árið sem nú er að renna sitt skeið reyndist henni krefjandi and­lega þar sem að hún glímdi við Olympics blu­es, and­lega niður­sveiflu sem íþrótta­menn geta fundið fyrir eftir að hafa keyrt sig í botn líkam­lega og and­lega á stórum mótum á borð við Ólympíu­leikana eða paralympics.

„Í sam­vinnu með mínum íþróttasál­fræðingi ákváðum við að ég kæmi ró­lega inn í heims­meistaramótið í Nýju Delí þar sem að ég myndi bara fá að njóta mín. Það greini­lega skilaði sér því þar set ég þetta Ís­lands­met í síðasta kasti. Það var bara geggjað að enda árið svona. Þetta var búið að vera svo erfitt, bara eins og af­reksíþróttir eru, það koma þessar bylgjur.“

Loksins rauf hún tíu metra múrinn með kasti sínu.

„Ég er búinn að stefna svolítið lengi á þennan stað, senni­lega tvö ár núna. Fólk skilur ekki alveg hvernig kúlu­varp virkar, þú ert ekki bara að bæta þig um einn sentí­meter í einu. Heldur geturðu lent í því að vera stopp í sömu tölunni í nokkur ár svo allt í einu kemur risa bæting. Það var smá þannig núna. Það sem hefur skilað mér á þennan stað er þessi stöðug­leiki í því að halda alltaf áfram, vinnu­semi, mæta alltaf þrátt fyrir að eiga erfiða tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×