Enski boltinn

„Erfitt þegar þú færð á þig mörk án þess að fá á þig færi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arne Slot var svekktur eftir 3-3 jafntefli kvöldsins.
Arne Slot var svekktur eftir 3-3 jafntefli kvöldsins. Getty/Molly Darlington

„Úff. Það er vantrúartilfinning,“ segir Arne Slot, þjálfari Liverpool, um líðan sína eftir 3-3 jafntefli við Leeds United í hreint ótrúlegum fótboltaleik á Elland Road í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Liverpool komst 2-0 yfir í leiknum og var með full tök þegar Ibrahima Konaté fór í illa ígrundaða tæklingu innan teigs, Leeds fékk víti og komst á bragðið.

„Við spiluðum nokkuð vel og stundum mjög vel. Við komumst 2-0 yfir, vorum í engum vandræðum og þeir sköpuðu ekkert. Þar til við brjótum á augnabliki þar sem er ekki einu sinni færi og þeir fá víti upp úr því,“ segir Slot.

„Fyrsta færið þeirra var svo 2-2 en við komumst aftur yfir og þá heldur maður að það sé búið að gera nóg. En svo er það fast leikatriði sem leiðir til 3-3.“

Jöfnunarmarkið kom eftir fast leikatriði sem hefur reynst Liverpool erfitt að verjast á leiktíðinni.

„Þetta er tíunda eða ellefta skiptið sem við fáum á okkur mark úr föstu leikatriði á þessu tímabili. Þegar þú færð á þig svona mörg þannig mörk geturðu ekki verið mikið ofar í töflunni en þar sem við erum. Þetta er sérlega svekkjandi fyrir leikmennina,“

„Við fáum á okkur mörk án þess að hinir skapi færi. En við á móti þurfum að vinna svo mikið fyrir okkar mörkum. Við áttum fleiri augnablik þar sem við hefðum getað skorað. En það er mjög erfitt að spila fótboltaleik þegar þú færð á þig mörk án þess að fá á þig færi,“

„Við getum aðeins kennt okkur sjálfum um. Þetta er staðan sem við erum í,“ segir Slot.

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×