Innlent

Leggja til að lækka innviðagjaldið enn meira

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Skemmtiferðaskip í Sundahöfn.
Skemmtiferðaskip í Sundahöfn. Vísir/Vilhelm

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að lækka innviðagjald skemmtiferðaskipa við strendur Íslands enn meira heldur en fjármálaráðherra hugnaðist. Færri skemmtiferðaskip komu til landsins í kjölfar gjaldsins. 

Um er að ræða gjald sem greiða þarf á hvern einstakling fyrir hvern sólarhring sem  skemmtiferðaskip er á tollasvæði Íslands en það tók fyrst gildi 1. janúar 2025. Áður þurfti að greiða svokallaðan gistináttaskatt, sem voru þúsund krónur fyrir hvern farþega á nótt. 

Með lögunum um innviðagjaldið sem tóku gildi í byrjun árs var upphæðin hækkuð upp í 2500 krónur, samfélögum á landsbyggðinni til mikilla ama sem treysta á komu ferðamanna á sumrin. 

Fyrr á árinu var greint frá að skipakomunum til Faxaflóahafna hefði fækkað vegna gjaldsins og einnig var greint frá fækkun ferða til Vestmannaeyja, Patreksfjarðar og Ísafjarðar. Forsvarsmenn bæjanna töldu að fækkun skipana myndi hafa veruleg efnahagsleg áhrif.

Í frumvarpi Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga er gert ráð fyrir að lækka gjaldið um fimm hundruð krónur fyrir næsta ár, og þá í tvö þúsund krónur. Það sé þó einungis bráðabirgðaákvæði fyrir næsta ár.

Falla frá bráðabirgðaákvæðinu

Efnahags- og viðskiptanefnd bárust ýmis sjónarmið sem snerta innviðagjaldið.

„Meðal annars var tekið fram að innviðagjaldið hefði borið brátt að og það hefði leitt til samdráttar í bókunum. Nefndin fjallaði talsvert um innviðagjaldið og hafði viðhorf umsagnaraðila til hliðsjónar. Að mati meiri hlutans var innviðagjaldið ákveðið of hátt sem hefur neikvæð áhrif í för með sér,“ segir í nefndaráliti.

Því er lagt til að innviðagjaldið skuli vera 1600 krónur fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skipuð dvelur á tollsvæði ríkisins. Með þessari breytingu fellur meiri hlutinn frá því að fyrirkomulagið um lækkun gjaldsins sé ákveðið með bráðabirgðaákvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×