Innlent

Sæði með krabba­meins­valdandi genagalla selt til Ís­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sæðisbankinn segir gallann ekki hefðu uppgötvast við skimun.
Sæðisbankinn segir gallann ekki hefðu uppgötvast við skimun.

Sæði úr gjafa sem er með genagalla sem eykur verulega líkurnar á krabbameinum var notað til að geta 197 börn. Sæðið var selt af European Sperm Bank í Danmörku, meðal annars til Íslands.

BBC greindi frá en RÚV tók þátt í rannsókn Evrópskra sjónvarpsstöðva á málinu og fjallað verður um málið í Kastljósi í kvöld.

Ónefndur fjöldi barna sem getinn var með sæðinu hefur þegar greinst með krabbamein, sum tvö, og einhver hafa látist.

Gjafinn gaf sæði þegar hann var námsmaður, frá árinu 2005. Það hefur síðan verið notað í um sautján ár. Viðkomandi og fjölskylda hans eru heilsuhraust en hann ber erfðabreytingu sem veldur skemmdum á geninu TP53, sem gegnir lykilhlutverki í því að koma í veg fyrir krabbamein.

Flestar frumur gjafans innihalda ekki hið skemmda TP53 en um 20 prósent sæðisfruma hans gerir það. Þau börn sem getin eru með sáðfrumu með hið skemmda gen, bera genið í öllum frumum líkamans.

Þetta veldur svokölluðu Li Fraumeni heilkenni og þýðir að um 90 prósent líkur eru á því að viðkomandi fái krabbamein, þá einna helst krabbamein á barnsaldri eða brjóstakrabbamein á fullorðinsaldri.

Einstaklingar með Li Fraumeni þurfa að gangast undir myndrannsóknir á hverju ári og margar konur kjósa að láta fjarlægja brjóstin.

Samkvæmt sæðisbankanum í Danmörku hefði gallinn ekki fundist með erfðaskimun.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá öllum löndum en að minnsta kosti 197 börn voru getin með sæði mannsins. Af 67 börnum sem vitað er að hafa verið rannsökuð fannst hið skemmda TP53 hjá 23 börnum.

Tíu hafa þegar greinst með krabbamein.

Að sögn Edwige Kasper, sérfræðingi við Rouen University Hospital í Frakklandi, hafa sum barnanna greinst með tvö krabbamein og einhver þegar dáið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×