Fótbolti

38 ára Jamie Vardy að skrifa söguna fyrir enska leik­menn á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy fagnar einu marka sinna með Cremonese en þessi ensku leikmaður átti flottan nóvembermánuð á Ítalíu.
Jamie Vardy fagnar einu marka sinna með Cremonese en þessi ensku leikmaður átti flottan nóvembermánuð á Ítalíu. Getty/Image Photo Agency

Hinn reynslumikli framherji Jamie Vardy hefur verið valinn leikmaður mánaðarins í Serie A á Ítalíu fyrir nóvember.

Vardy, sem verður 39 ára í næsta mánuði, gekk til liðs við Cremonese í upphafi tímabilsins og er fyrsti enski leikmaðurinn til að hljóta verðlaunin síðan þau voru tekin upp í efstu deild Ítalíu árið 2019.

Viðurkenningin kemur þrátt fyrir að Cremonese, sem situr í níunda sæti Serie A, hafi tapað öllum þremur leikjum sínum í nóvember, en Vardy skoraði eina mark sitt í 2-1 tapi gegn Juventus.

Verðlaunin eru valin af stuðningsmönnum í bland við tölfræðileg gögn og hafði Vardy betur gegn markverði AC Milan, Mike Maignan, framherja Inter Milan, Lautaro Martínez, David Neres hjá Napoli, Leo Østigard hjá Genoa og Nicolò Zaniolo hjá Udinese.

Jamie Vardy hefur skorað fjögur mörk í tíu leikjum í Serie A síðan hann gekk til liðs við Cremonese. Forstjóri Serie A, Luigi De Siervo, sagði á vefsíðu deildarinnar: „Jamie Vardy er sannarlega leikmaður frá öðrum tíma. Einn af þessum hæfileikamönnum sem, með sögu sinni, afrekum og óbilandi baráttuanda í hverjum leik, tjá rómantík fótboltans best,“ sagði De Siervo.

„Komu hans til Cremonese, sem var fljótt að grípa tækifærið í sumar, var fagnað með miklum eldmóði af öllum stuðningsmönnum Serie A, og Vardy endurgeldur þeim með frammistöðu í hæsta gæðaflokki, meðfæddum leiðtogahæfileikum og mikilvægum mörkum,“ sagði De Siervo.

Vardy hefur byrjað síðustu átta leiki Cremonese og skoraði tvö mörk í 3-1 sigri þeirra á Bologna þann 1. desember.

Þessi fyrrverandi landsliðsmaður Englands er þekktastur fyrir sín þrettán ár með Leicester en hann hjálpaði liðinu að vinna einn óvæntasta enska úrvalsdeildartitilinn árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×