Enski boltinn

Amorim verður á­nægður ef Mainoo ræðir við hann um lán

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim ræðir við Kobbie Mainoo.
Ruben Amorim ræðir við Kobbie Mainoo. getty/Ash Donelon

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hann yrði ánægður ef miðjumaðurinn Kobbie Mainoo myndi ræða við hann um möguleikann á að fara annað á láni.

Amorim hefur notað hinn tvítuga Mainoo afar sparlega á tímabilinu sem hefur farið verulega í taugarnar á mörgum stuðningsmönnum United og fyrrverandi leikmönnum liðsins.

Mainoo hefur aðeins byrjað einn leik á tímabilinu, gegn Grimsby Town í deildabikarnum, og mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð hans hjá United.

Amorim segist vera tilbúinn að ræða við Mainoo um möguleikann á að fara á lán og hann vilji fyrst og síðast að leikmennirnir sínir séu ánægðir.

„Ef Kobbie kemur og talar við mig, tala ég við hann. Ég ætla ekki að segja hvað ég mun segja við hann en ég verð mjög ánægður ef Kobbie talar við mig um það. Ég vil bara að leikmennirnir mínir séu sáttir og skil að hver þeirra hefur sín markmið,“ sagði Amorim fyrir leikinn gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Pirringur hjálpar engum. En við einbeitum okkur að leiknum og sjáum hvað gerist. Ég hef átt nokkur samtöl við hann, sérstaklega á síðasta ári, og aðra leikmenn en ekki um þetta tiltekna mál. En ég er opinn fyrir samtali.“

Með sigri á Bournemouth á Old Trafford í kvöld kemst United upp í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur aðeins tapað einum af síðustu níu deildarleikjum sínum.

Leikur Manchester United og Bournemouth hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×