Innlent

Norðurþing og Heidelberg undir­rita vilja­yfir­lýsingu vegna upp­byggingar á Bakka

Lovísa Arnardóttir skrifar
Stefnt er að því að hefja uppbyggingu á Bakka.
Stefnt er að því að hefja uppbyggingu á Bakka. Norðurþing

Norðurþing og Heidelberg hafa undirritað viljayfirlýsingu í tengslum við uppbyggingu á Bakka. Í tilkynningu segir að um sé að ræða verkefni þar sem móberg verður þurrkað og unnið sem íblendiefni í sementsframleiðslu. Þar kemur einnig fram að Heidelberg kanni nú möguleika á staðsetningu slíkrar framleiðslu á Bakka.

Félagið er samkvæmt tilkynningu með rannsóknarleyfi til að kanna efnisöflun á svæðinu ofan Bakka og í Grísatungufjöllum. Jafnframt hefur félagið áhuga á að kanna nánar efnisgæði á söndunum við Jökulsá á Fjöllum.

Í viljayfirlýsingunni segir meðal annars að aðilar séu sammála um að markmið samstarfs þeirra sé að kanna og eftir atvikum leggja grunn að uppbyggingu starfsstöðvar Heidelberg til fullvinnslu jarðefnis á Bakka til framtíðar. Slík uppbygging sé talin geta stuðlað að aukinni atvinnustarfsemi og haft jákvæð áhrif fyrir sveitarfélagið í samræmi við áætlanir þess um atvinnuþróun.

Að lokum segir að ljóst sé að verkefnið muni þurfa í umhverfismat og að Heidelberg stefni á að því að vinna það mat samhliða frekari rannsóknum á mögulegum efnistökusvæðum.

Greint var frá því í febrúar að Heidelberg væri með það til skoðunar að koma upp vinnslu sinni á Húsavík eftir að því var hafnað í íbúakosningu í Þorlákshöfn að koma upp vinnslunni þar. 


Tengdar fréttir

„Sannleikurinn oft fyrsta fórnarlambið“

Talsmaður Heidelberg segir að fyrirtækið hafi nú þegar eytt á annan milljarð króna við undirbúning á mölunarverksmiðju í Ölfusi. Niðurstaða íbúakosningar um verkefnið sé vonbrigði. Sannleikurinn hafi verið fórnarlamb í aðdraganda hennar. Bæjarstjóri Ölfuss fagnar að niðurstaðan sé trúverðug.

Heidelberg hvergi af baki dottið

Þorsteinn Víglundsson talsmaður mölunarverksmiðjunnar Heidelberg segir niðurstöðu íbúakosningar i Ölfusi, um starfsleyfi fyrirtækisins vera vonbrigði. Fyrirtækið er aftur á móti hvergi af baki dottið og mun leita að öðrum stað til móbergsmölunar hér á landi. 

Íbúar hafna mölunarverksmiðjunni með afgerandi hætti

Íbúar í Ölfusi hafa með afgerandi hætti hafnað því að veita fyrirtækinu Heidelberg Matarials starfsleyfi í Þorlákshöfn. Oddvita minnihlutans er mjög létt, og bæjarstjóri fagnar því að niðurstaðan sé skýr. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×