Lífið

Ný­kominn úr með­ferð og „sjaldan verið betur nýs­leginn tú­skildingur“

Atli Ísleifsson skrifar
Sigmar Vilhjálmsson hefur nýlokið rúmlega þriggja vikna áfengismeðferð og segist hafa lært margt og mikið.
Sigmar Vilhjálmsson hefur nýlokið rúmlega þriggja vikna áfengismeðferð og segist hafa lært margt og mikið. Vísir

Sigmar Vilhjálmsson, Simmi Vill, er nýkominn úr áfengismeðferð og segir hann að hann hafi „sjaldan verið betur nýsleginn túskildingur“ en eftir þá reynslu.

Sigmar ræddi málið við upphaf Bítisins á Bylgjunni í morgun þar sem hann stýrði þættinum ásamt þeim Lilju Katrínu og Ómari Úlfi.

Sigmar ræddi málið einlæglega og segir að þetta hafi verið vandamál sem hafi þurft að tækla og sé ekkert til að vera feiminn vegna. „Þá gerir maður það bara og það er ekkert til að vera feiminn yfir.“

Frábær formúla

Sigmar segir að slíkri meðferð fylgi aukaafurðir, enda hafi hann verið þar í tuttugu og fjóra daga.

„Þetta er frábær formúla og hefur virkað fínt. Menn þurfa mismunandi mikla afeitrun. Ég kom þar inn eftir að hafa ekki smakkað áfengi í tuttugu daga þannig að ég var því ekki í afeitrunarferlinu. Þetta er mikil kennsla líka. Og þetta er bara fræðsla og maður er aðeins að meðtaka hvað breytist og hvað gerist.

Viðbótarupplifunin mín var að 24 frá vinnu er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað. Maður er bara tekinn úr sambandi í 24 daga. Það eitt og sér er bara hrikalega endurnærandi og hollt. Þannig að ég mæli fyrir alla þá sem mögulega telja sig þurfa á að halda. […] Ég held að enginn hafi farið í meðferð og séð eftir því.“

Hlusta má á samtalið í heild sinni í spilaranum að neðan. 

Tók út nikótínið líka

Sigmar segir að honum hafi verið skammtaður símatími og að hann hafi verið þarna á fyrirlestrum og fleiru. „Maður er að vinna verkefni og maður er í sjálfsskoðun og skoða alls konar hluti. Eitthvað er það sem veldur að maður er ekki að nota [áfengi] sem gleðigjafa. Maður er að nota þetta til að deyfa sig eða flýja eitthvað. Fresta málum, fresta vandamálum.“

Sigmar segir einnig að hann hafi ákveðið að hætta nikótínnotkun á sama tíma, enda séu menn hvattir til þess. „Þannig að það var kannski afeitrunin mín á Vogi. Það var að taka út nikótínskjálftann. Ég er náttúrulega búinn að gera þetta síðan ég var unglingur. Ég bjó í Svíþjóð þegar ég var unglingur og byrjaði þá að taka munntóbak.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.