Sport

Gagn­rýndi Paul: „Beið eftir að verða sleginn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Joshua sló Jake Paul nokkrum sinnum í gólfið.
Anthony Joshua sló Jake Paul nokkrum sinnum í gólfið. getty/Carmen Mandato

Lennox Lewis, fyrrverandi heimsmeistari í þungavigt, fannst ekki mikið til frammistöðu Jakes Paul í boxbardaganum gegn Anthony Joshua koma. Hann sagði að samfélagsmiðlastjarnan hafi ekki verið í nógu góðu formi.

Joshua, sem varð á sínum tíma tvívegis heimsmeistari í þungavigt, þurfti sex lotur til að sigra Paul sem átti í vök að verjast í bardaganum í nótt. Hann átti til að mynda aðeins sextán heppnuð högg í viðureigninni.

„Paul var ekki í góðu formi, sérstaklega gegn svona stórum þungavigtarboxara,“ sagði Lewis eftir bardagann í Miami.

„Það sást eftir nokkrar lotur. Hann var bara þarna og beið eftir að verða sleginn,“ bætti gamli heimsmeistarinn við.

Lewis fannst Joshua heldur ekkert sérstakur í bardaganum og þótti hann virka ryðgaður.

„Það sást að hann hafði ekki keppt í fimmtán mánuði. Hann þurfti nokkrar lotur til að hita sig upp og venjast hringnum á ný áður en hann lét höggin dynja. Hann gerði það sem hann þurfti. Hann keppti á móti boxara sem hljóp um hringinn og hann varð að ná honum,“ sagði Lewis.

Paul fór á spítala eftir bardagann og síðar kom í ljós að hann var tvíkjálkabrotinn. Hann ætlar samt að halda ótrauður áfram eftir smá hlé frá hringnum.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×