Fótbolti

Sjáðu geggjaðan snúning Alberts áður en hann skoraði frá­bært mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Gudmundsson fagnar marki sínu með liðfélaga í Fiorentina.
Albert Gudmundsson fagnar marki sínu með liðfélaga í Fiorentina. Getty/Image Photo Agency

Íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson skoraði frábært mark í langþráðum sigri Fiorentina í ítölsku Seriu A-deildinni í gær.

Fiorentina vann Udinese 5-1 en þetta var fyrsti deildarsigur liðsins á leiktíðinni, í leik númer sextán. Albert skoraði annað markið á 42. mínútu leiksins.

Markið var einkar huggulegt, ekki bara afgreiðslan heldur einnig hvernig Albert losaði sig á besta stað fyrir framan vítateiginn.

Albert fékk þarna boltann frá Fabiano Parisi með varnarmann í bakinu en tók geggjan snúning sem fíflaði varnarmann Udinese algjörlega upp úr skónum.

Gabbhreyfing Alberts var svo góð að hann var allt í einu kominn í frábært skotfæri við teiginn.

Albert var ekki lengi að nýta sér það og skaut frábæru vinstri fótar skoti upp í bláhornið, óverjandi fyrir markvörð Udinese.

Þetta var svo erfitt færi að xG-ið var aðeins 0,08 sem segir mikið um erfiðleikastigið á danstilþrifum íslenska landsliðsmannsins fyrir framan teiginn.

Albert var þarna að skora þriðja deildarmarkið sitt á leiktíðinni en hann hefur alls skorað sex mörk í öllum keppnum á leiktíðinni.

Þetta frábæra mark má sjá hér fyrir neðan en einnig stangarskot Alberts fyrr í leiknum sem og nokkur færi sem hefðu getað gefið honum bæði fleiri mörk og stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×