Enski boltinn

Man. Utd reyndi stíft en Semenyo kaus City

Sindri Sverrisson skrifar
Antoine Semenyo verður ekki mikið lengur hjá Bournemouth.
Antoine Semenyo verður ekki mikið lengur hjá Bournemouth. Getty/Robin Jones

Antoine Semenyo hefur verið afar eftirsóttur og nú er allt útlit fyrir að hann endi sem leikmaður Manchester City í janúar, samkvæmt helstu félagaskiptafréttamönnum fótboltans.

Fabrizio Romano segir í kvöld að City sé á góðri leið með að klára samning við Semenyo á næstu dögum. Það virðist því styttast óðum í að hann kveðji Bournemouth, eftir átta mörk og þrjár stoðsendingar í 16 deildarleikjum í vetur.

Romano segir City hafa nýtt Þorláksmessu í að koma hreyfingu á hlutina og það virðist hafa skilað árangri.

Semenyo kaus sjálfur að fara til City þrátt fyrir að Manchester United hafi einnig sýnt mikinn áhuga. Tottenham og Chelsea eru að sögn Romano ekki lengur inni í myndinni.

David Ornstein hjá The Athletic segir það sama en að ekkert verði formlega gert fyrr en að janúarglugginn opnist. United hafi sótt það stíft að fá Semenyo en reynst það erfitt á þessum tímapunkti. Hann hafi ekki verið hugsaður sem vængbakvörður hjá United heldur framar á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×