Enski boltinn

United horfir til Þýska­lands eftir höfnun Semenyo

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúben Amorim vill styrkja hópinn. Spurningin er hvort fjármagnið sé til.
Rúben Amorim vill styrkja hópinn. Spurningin er hvort fjármagnið sé til. Getty/Justin Setterfield

Manchester United leitar kantmanns til að styrkja sóknarleik liðsins fyrir síðari hluta tímabilsins. Liðið gerði hvað það gat að sannfæra Antoine Semenyo um að koma á Old Trafford en útlit er fyrir að hann gangi í raðir bláklæddra granna. En hvert leitar United næst?

Fjórir kostir eru sagðir hvað mest til skoðunar innanbúðar hjá Rauðu djöflunum.

Norðmaðurinn Antonio Nusa, tvítugur kantmaður Leipzig, sem kom þangað frá Club Brugge sumarið 2024. Sá hefur heillað, og ekki síst með norska landsliðinu sem er á leið á HM næsta sumar, í fyrsta sinn í 28 ár.

Nusa hefur gert vel fyrir norska landsliðið.Image Photo Agency/Getty Images

Liðsfélagi Nusa, hinn 19 ára gamli Yan Diomande frá Fílabeinsströndinni, er einnig sagður vekja áhuga United. Hann hefur aðeins verið í Þýskalandi í örfáa mánuði eftir skipti frá Leganés á Spáni í sumar en hefur skorað sex mörk í 14 deildarleikjum fyrir liðið.

United hefur einnig augastað á Karim Adeyemi, leikmanni Dortmund. Sá er 23 ára og kom til Dortmund frá RB Salzburg sumarið 2022. Mikið kurr var í kringum Adeyemi þegar hann var táningur en hann hefur sýnt misgóðar frammistöður í gulri treyju Dortmund. Hann hefur þó endurheimt sæti í þýska landsliðshópnum í ár, eftir að hafa þreytt frumraun sína árið 2021, en ekkert leikið fyrir Þjóðverja frá 2022 til 2024.

Karim Adeyemi er 23 ára, og elstur þeirra fjögurra sem United er sagt fylgjast með.Geert van Erven/Soccrates/Getty Images

Tyrkinn Kenan Yildiz er fjórði á listanum. Hann er tvítugur og spilar fyrir ítalska stórveldið Juventus. Yildiz er talinn meðal allra efnilegustu leikmanna heims og hefur ítrekað verið orðaður við stórlið í Evrópu. Þrátt fyrir að vera ekki eldri hefur hann þegar spilað tæplega 80 deildarleiki fyrir gömlu konuna í Tórínó.

Ljóst er að allir þeir kostir sem nefndir eru verða United kostnaðarsamir og óljóst hversu mikið er milli handa eigenda liðsins í janúar-mánuði á leiktíð þar sem liðið er utan Evrópukeppni.

Miðjumannastaðan er líklega ofar á forgangsröðun Rúbens Amorim sem er sagður vilja fá landa sinn Rúben Neves frá Sádi-Arabíu, en samningur hans rennur út í sumar við Al-Hilal.

United er einnig með augastað á Carlos Baleba í Brighton, Elliot Anderson í Nottingham Forest, Adam Wharton í Crystal Palace, Tyler Adams í Bournemouth, Angelo Stiller, leikmanni Stuttgart og Joao Gomes, miðjumanni Wolves, hvað miðsvæðið varðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×