Enski boltinn

Schade og Jiménez sendu Brentford og Fulham í efri hlutann

Sindri Sverrisson skrifar
Brentford-menn fögnuðu vel í dag.
Brentford-menn fögnuðu vel í dag. Getty/Shaun Brooks

Brentford kom sér upp í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag, með góðum 4-1 sigri gegn Bournmouth þar sem Kevin Schade gerði þrennu. Fulham vann dísætan sigur í Lundúnaslag gegn West Ham en Burnley og Everton gerðu markalaust jafntefli.

Bournemouth hefur ekki unnið leik síðan í október og það breyttist ekki í dag þegar liðið tapaði fyrir Brentford.

Kevin Schade skoraði tvö mörk og Djordje Petrovic fékk skráð á sig sjálfsmark, og var staðan orðin 3-0 eftir fimmtíu mínútna leik.

Antoine Semenyo, sem allt útlit er fyrir að haldi til Manchester City í janúar, minnkaði muninn af stuttu færi þegar korter var til leiksloka en minni varð munurinn ekki. Þess í stað fullkomnaði Schade þrennuna sína með skalla á síðustu mínútu.

Brentford er núna í 8.-10. sæti með 26 stig, aðeins þremur stigum frá 5. sæti sem er mögulegt Meistaradeildarsæti. Bournemouth nálgast hins vegar enn fallsvæðið og er með 22 stig í 15. sæti.

Jiménez hetja Fulham

Harry Wilson hefur verið sjóðheitur fyrir Fulham og hann lagði upp sigurmark Raúl Jiménez gegn West Ham, með skalla fimm mínútum fyrir leikslok.

West Ham hefur því ekki unnið neinn af síðustu sjö leikjum sínum og er í 18. sæti með 13 stig, fimm stigum frá næsta örugga sæti. Fulham er hins vegar með 26 stig líkt og Crystal Palace og Brentford í 8.-10. sæti.

Burnley áfram næstneðst

Engin mörk voru hins vegar skoruð í leik Burnley og Everton. Burnley var nær því að finna sigurmark í lokin en inn vildi boltinn ekki.

Burnley er því áfram í 19. sæti, nú með 12 stig, en Everton er í 11. sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×