Handbolti

Ís­lendingarnir í miklum ham fyrir EM

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson virðist mæta í stuði til móts við íslenska landsliðið fyrir EM.
Elliði Snær Viðarsson virðist mæta í stuði til móts við íslenska landsliðið fyrir EM. EPA/ANTONIO BAT

Íslensku landsliðsmennirnir voru afar áberandi í dag í síðustu umferð þýska handboltans fyrir Evrópumót karla í janúar. Íslendingar voru einnig á ferðinni í þýsku kvennadeildinni, svissneska bikarnum og sænska handboltanum.

Línumaðurinn Elliði Snær Viðarsson skoraði sjö mörk fyrir Gummersbach og var næstmarkahæstur lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar, í 33-27 sigri gegn Hamburg. Teitur Örn Einarsson, sem líkt og Elliði er svo á leið til Íslands til móts við íslenska EM-hópinn 2. janúar, skoraði tvö mörk.

Ómar Ingi Magnússon var líkt og Elliði með sjö mörk fyrir Magdeburg, annar markahæstu manna liðsins, í 30-25 útisigri gegn Eisenach. Magdeburg tapaði þar með ekki leik fyrir áramót og fer inn í EM-hléið með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var einnig frábær og mataði liðsfélaga sína með heilum níu stoðsendingum, auk þess að skora fjögur mörk. Elvar Örn Jonsson var hins vegar ekki á meðal markaskorara í dag.

Andrea lék eftir HM-meiðslin

Þýska kvennadeildin er farin af stað að nýju eftir HM-hléið en þar varð Íslendingaliðið Blomberg-Lippe að sætta sig við tap á útivelli gegn Oldenburg, 30-26.

Andrea Jacobsen var mætt til leiks eftir að hafa misst af HM vegna meiðsla, og skoraði eitt mark líkt og Díana Dögg Magnúsdóttir en Elín Rósa Magnúsdóttir var með tvö mörk.

Óðinn öflugur og spilar um gull

Í Sviss mun Óðinn Þór Ríkharðsson leika um gullverðlaun á morgun, í svissneska bikarnum, eftir 28-26 sigur Kadetten Schaffhausen gegn Otmar St. Gallen í undanúrslitum í dag.

Óðinn lét að vanda til sín taka og skoraði sex mörk úr sjö skotum.

Kadetten mætir Winterthur í úrslitaleiknum á morgun, og eftir þann leik heldur Óðinn svo til móts við íslenska landsliðið sem á sinn fyrsta leik á EM 16. janúar en spilar fyrst á æfingamóti í Frakklandi.

Í Svíþjóð fagnaði Arnar Birkir Hálfdánsson svo sigri með Amo gegn Hammarby, 28-25, þar sem Arnar skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×