Højlund með tvö og Napoli í annað sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rasmus Højlund hefur fundið fjölina sína hjá Napoli eftir erfitt síðasta tímabil hjá Manchester United.
Rasmus Højlund hefur fundið fjölina sína hjá Napoli eftir erfitt síðasta tímabil hjá Manchester United. getty/SSC NAPOLI

Danski framherjinn Rasmus Højlund heldur áfram að gera það gott með Napoli og skoraði bæði mörk liðsins í 0-2 útisigri á Cremonese í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.

Napoli vann ítalska ofurbikarinn í Sádi-Arabíu skömmu fyrir jól og fylgdi því eftir með sigri á útivelli í dag.

Højlund kom Napoli yfir á 13. mínútu og hann bætti öðru marki við fyrir meistarana á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Daninn er nú kominn með níu mörk fyrir Napoli í tuttugu leikjum á tímabilinu. Hann skoraði aðeins tíu í 52 leikjum fyrir Manchester United á síðasta tímabili.

Napoli er í 2. sæti ítölsku deildarinnar með 34 stig, einu stigi á eftir toppliði AC Milan. Inter er í 3. sætinu og getur komist á toppinn með því að vinna Atalanta á eftir.

Cremonese, sem hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum, er í 12. sæti deildarinnar með 21 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira