Atvinnulíf

Danir lengra komnir í að nýta spuna á vinnu­stöðum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Dóra Jóhannsdóttir, leikkona og fyrirlesari, segir spuna ekki ganga út á að reyna að vera fyndin. Spuni kennir okkur hins vegar góða hluti eins og virkari hlustun, að búa til verðmæti úr engu og betri samskipti.
Dóra Jóhannsdóttir, leikkona og fyrirlesari, segir spuna ekki ganga út á að reyna að vera fyndin. Spuni kennir okkur hins vegar góða hluti eins og virkari hlustun, að búa til verðmæti úr engu og betri samskipti. Vísir/Vilhelm

Það er svo gaman að fara yfir það með Dóru Jóhannsdóttur leikkonu og fyrirlesara, hvernig spuni getur nýst vinnustöðum.

Því ólíkt því sem margir halda, er spuni svo praktískur!

Við lærum betur að hlusta.

Verðum betri í að búa til hluti úr engu.

Verðum betri í samskiptum.

„Það er enginn að fara upp á svið og gera sig að fífli,“ segir Dóra og brosir.

„Spunaæfingarnar eru flestar gerðar úr sætunum þar sem fólk situr. Æfir sig með sessunautum.“

Algenga mýtu þarf þó að leiðrétta strax. Og það er mýtan um að spuni snúist um að vera fyndinn eða að geta verið fyndinn.

„Nei það er alls ekki svo,“ segir Dóra og hlær.

„Fyrsta reglan í spunaæfingum hjá mér er einmitt sú að það er bannað að reyna að vera fyndinn!“

Skíthrædd við óvissuna

Dóra byrjaði að nema spunafræðin fyrir rúmum áratug. Þá í Bandaríkjunum. Árið 2015 stofnaði hún Improv Ísland og síðar Improv skólann. Í dag er hún eftirsóttur fyrirlesari fyrir vinnustaði og vinnur líka með vinnustöðum á vinnustofum eða námskeiðum.

Í fyrra fór hún síðan í skiptinám í Copenhagen Business School (CBS).

„Viðskiptalífið í Danmörku er lengra komið í því að nýta spuna markvisst á vinnustöðum en hér. Þó hefur mér fundist eins og atvinnulífinu hér þyrsti svolítið í þetta. Hef verið með fyrirlestra og vinnustofur fyrir hópa sem telja 5-1500 manns, upplifa svo mikla ánægju og þakklæti frá fólki en hef oft velt fyrir mér: Hvers vegna er þessi hópur svona áhugasamur?“ segir Dóra þegar hún skýrir út tenginguna um spunafræðin og vinnumarkaðinn.

„Í CBS áttaði ég mig svo endanlega á þessu. Því spuni snýst í rauninni um óvissu og hvernig við lærum að takast á við óvissuna.“

Þannig segir Dóra óvissuna vera eitt af einkennum atvinnulífs, það sé í raun óhjákvæmilegt.

„Við listafólkið erum kannski æfðari í því að lifa með óvissunni, vitum ekki hvað tekur við næst og svo framvegis. Fólk í viðskiptum á hins vegar auðveldara með að vera inn í þeim kassa sem fjármál, samningar og svo framvegis eru. En er skíthrætt við óvissuna.“

Að ræða um óvissu er engin tilviljun.

„Því latneska orðið improvisus þýðir hið ófyrirséða, hið óvænta.“

Sem spuni síðan æfir okkur svo vel í að takast á við. Því í spuna vitum við ekki hvað gerist næst. Og það góða við spuna er að þegar við æfum okkur í spuna, gerist það ósjálfrátt að við verðum betri í þessum eftirsóttu eiginleikum eins og að verða betri hlustendur.

Enda er það þannig að það ekki endilega grínistarnir á vinnustaðnum sem eru bestir í spuna, heldur fólkið sem eru best í að hlusta.“

Dóra segir börn algjöra spunameistara. Þau séu óhrædd við að leika sér og hafa gaman, án þess að hafa áhyggjur af því hvað öðru fólki finnst. Að vissu leyti gangi spuni út á að rækta barnið í okkur.Vísir/Vilhelm

Snillingarnir í okkur

Dóra byrjaði að vinna með fyrirtækjum og stofnunum í kjölfar Covid.

„Covid var auðvitað mjög gott dæmi um allsherjar óvissu fyrir okkur öll. Þá gat ég hvorki leikið né verið með námskeið, þannig að ég byrjaði á að vera með spunafyrirlestra og vinnustofur á Zoom.“

Síðan þá hefur eftirspurnin aukist. Vinsælast er að fá Dóru sem fyrirlesara á vinnustaði.

„En oft legg ég til að það sé ekki látið vita fyrirfram að ég sé að koma. Því þegar fólk heyrir um spuna, heldur það oft að nú verði það tekið fyrir og látið gera eitthvað; enginn vill gera sig að fífli,“ segir Dóra og hlær.

Það skemmtilega er þó, að enginn þarf að hafa áhyggjur af einu eða neinu. Því í raun er spuni eiginleiki sem við búum nú þegar yfir.

Öll.

„Börn eru snillingar í spuna. Þau kunna að leika sér, skapa, hafa gaman. Og eru ekkert að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst,“ segir Dóra og bætir við:

Því miður förum við að tapa þessum eiginleika þegar við nálgumst unglingsaldurinn. 

Þá verðum við svo upptekin í því hvað öðru fólki finnst, förum að hafa áhyggjur af öllu.“

Sem leiðir okkur að næsta atriði:

„Í raun snýst spuni svolítið um að leyfa okkur að tengjast barninu í okkur aftur. Að þora að fíflast aðeins án þess að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst.“

Dóra lýsir því sem svo jákvæðri stemningu þegar hún er með fyrirlestra eða vinnustofur.

„Maður sér fólk einfaldlega fara að lýsast upp og ég hef séð ólíklegasta fólk opnast og taka þátt, jafnvel þannig að í fyrstu virðist hópur frekar lokaður en endar þannig að allir eru í spuna og geðveiku stuði,“ segir Dóra og bætir við:

„Spuni er nefnilega eitthvað sem fólki finnst gaman og ég upplifi fólk á vinnustöðum mjög þakklátt efninu og umræðunni. Því auðvitað kemur í ljós þegar við prófum spuna, að spuni er eitthvað sem enginn þarf að óttast og fólk einfaldlega æfir sig í spuna þar sem það situr.“

Annað sem Dóra segir líka mikilvægt að vita er að þótt fólk vilji æfa sig í spuna, er ekki þar með sagt að það þurfi að sitja heilu námskeiðin.

„Það er alls ekki þannig. Hjá mér eru fyrirlestrar til dæmis vinsælastir. Á fyrirlestrunum tökum við smá æfingar og þótt vinnustaðir haldi áfram að virkja fólk í spuna, er ekki eins og það þurfi þá að taka námskeið eða vinnustofur.“

Spuni snúist hins vegar um að muna eftir eiginleikanum.

Ég er búin að vera í þessu í yfir áratug. En alla daga þarf ég samt að minna mig á spunann. 

Að minna mig á eiginleikana sem hjálpa mér að vera betri í hlustun, betri í samskiptum og sköpun. 

Að hafa ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst.“



Dóra hefur unnið með bæði stærri og smærri hópum á vinnustöðum og mælir sérstaklega með spuna sem undirbúning fyrir vinnu sem felur í sér stórar ákvarðanir. Eins og stefnumótun eða breytingar.Vísir/Vilhelm

Efnisyfirlitið góða

Dóra segir mikilvægt fyrir okkur í lífi og starfi að geta svolítið sleppt af okkur beislinu, án þess að hafa áhyggjur af því hvað öðru fólki finnst.

Þetta eigi sérstaklega við um atvinnulífið.

„Það skiptir svo miklu máli á vinnustöðum að fólk upplifi sálfræðilegt öryggi og þori að sleppa af sér beislinu, fá hugmyndir út fyrir kassann og virkja sköpunarkraftinn í teymum,“ segir Dóra og bætir við:

„Þetta þýðir þá jafnframt að leiðtogar þurfa að setja rammann; vera skýrir um að það má koma með alls kyns hugmyndir, líka lélegar. Enginn á að vera hræddur um að segja ekki réttu hlutina eða hugsa setningar eins og: Verð ég rekin ef ég sting upp á þessu og svo framvegis.“

Spuni hjálpi vinnustöðum vel í þessu.

Dóra segir spuna líka gott verkfæri til að þjálfa eiginleika sem við viljum að séu ríkjandi á vinnustöðum eða innan liðsheilda.

Virk hlustun þar oft nefnd.

„Á fyrirlestrum tala ég oft um hlustunarvöðvann. Þótt auðvitað sé hlustun ekki vöðvi. Hins vegar getum við æft okkur í að vera góð í hlustun og til þess að æfa okkur, hjálpar stundum að hugsa um hlustunarvöðvann.“

Dóra tekur líka aðra samlíkingu sem er gott að setja í samhengi við hvernig spuni getur hjálpað okkur að takast á við óvissu.

„Að æfa okkur í spuna er eins og að æfa okkur í viðbragði við óvissu.“

Það eru óvissutímar framundan í atvinnulífinu, ekki síst vegna tækniframfara. Dóra segir spuna í raun leið til að æfa okkur í viðbragði við óvissu. Til viðbótar við að þjálfa eiginleika eins og að vera skapandi, lausnarmiðuð eða góð í að hlusta.Vísir/Vilhelm

Um þessar mundir er Dóra að skrifa bók, þar sem hún skýrir vel út hvernig hægt er að nýta spuna og spunafræðin í lífi og starfi. Einfaldlega sem leið sem virkar fyrir alla.

Sem er nokkuð auðheyrt þegar við fáum að heyra hvernig efnisyfirlitið hjá Dóru lítur út núna eða hljómar.

Því það byggir á níu köflum sem hver og einn tekur á því sem Dóra kallar helstu leikreglurnar. Kaflaheitin eru:

1. Hlustaðu – taktu eftir

2.Já og…. Þetta er kaflinn þar sem við lærum að viðurkenna eitthvað og bætum við

3.Vertu hérna…. Kaflinn sem beinist að núvitund

4. Slepptu tökunum

5. Vertu sveigjanlegur

6. Taktu af skarið – taktu áhættu

7. Vertu til staðar

8. Mistök eru gjafir

9. Segðu sannleikann

En hvaða vinnustaðir eru það helst, sem þú myndir mæla með að tækju spuna fyrir sem leið til að efla hópinn?

„Ég myndi auðvitað sega allir,“ segir Dóra og hlær.

En bætir við:

Ég hef unnið með stjórnum, framkvæmdastjórnum og heilu fyrirtækjunum eða stofnunum. 

Og oft er það þá einkennandi að þessir hópar eru að fara í einhverja vinnu framundan þar sem verið er að vinna í óvissunni. 

Til dæmis breytingum, hagræðingum, stefnumótun og svo framvegis. 

Vegferð þar sem fyrirséð er að stórar ákvarðanir verða teknar. Spuni getur verið góð leið til að undirbúa svona vinnu, vegna þess að spuni hjálpar okkur í þessum atriðum sem skipta svo miklu máli í vinnunni; að vera góð að hlusta, að vera hugmyndarík og skapandi og svo framvegis.“


Tengdar fréttir

Spilavinir í vinnunni: Efla samskipti, sam

Það komast fáir með tærnar þar sem Þorvaldur Guðjónsson hefur hælana þegar kemur að því að nýta spilamennsku sem leið til að efla saman hópa.

vinnu og hrista saman hópinn

Það komast fáir með tærnar þar sem Þorvaldur Guðjónsson hefur hælana þegar kemur að því að nýta spilamennsku sem leið til að efla saman hópa.

„Starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hættir“

„Rannsóknir sýna að starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hætti störfum í kjölfar uppsagnar,“ segir Hilja Guðmundsdóttir ráðgjafi hjá Mental ráðgjöf og sérfræðingur í mannauðsstjórnun. Og er þar að vísa í það sem getur gerst á vinnustað, eftir hópuppsagnir.

Mjög mikilvægt að eiga besta vin í vinnunni

„Það getur svo sem vel verið að einhverjir vinnuveitendur hugsi sem svo; Mér er skítsama hvort fólk eigi einhvern besta vin í vinnunni, ég vil bara að fólk sé að vinna!“ nefnir Tómas Bjarnason sviðstjóri stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafar Gallup sem dæmi um viðhorf vinnuveitanda sem telur það ekki sitt hlutverk að spá í hvort starfsfólk eigi sinn besta vin í vinnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×