Innlent

Göngu­leið yfir Elliða­ár í stað hitaveitustokksins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Göngustígurinn verður með rauðum rörum sem eiga að minna á hitaveituna.
Göngustígurinn verður með rauðum rörum sem eiga að minna á hitaveituna. Reykjavíkurborg

Þrjár nýjar göngubrýr verða lagðar yfir Elliðaár neðst í Elliðaárdal á árinu til að endurheimta eldri gönguleið sem fylgdi gamla hitaveitustokknum yfir árnar. Með brúnum kemur 250 metra langur göngustígur sem liggja mun þvert yfir árkvíslar skammt ofan við veiðihús Elliðaánna en neðan við Toppstöðina.

Hitaveitustokkurinn var lagður á árunum 1939 til 1943 til að flytja heitt vatn sautján kílómetra leið úr Mosfellssveit til Reykjavíkur og lá hann að hitaveitugeymunum á Öskjuhlíð. Þar sem stokkurinn flutti heitt vatn var hann ylvolgur og festi hvorki snjó né klaka á honum og varð hann vinsæl gönguleið.

Svona var gamla gönguleiðin þegar tveir hitaveitustokkar lágu samsíða yfir Elliðárnar.Vísir

Borgarbúar höfðu notið þess í hartnær áttatíu ár að geta gengið eftir stokknum yfir Elliðaár þar til gönguleiðin var rofin með framkvæmdum sem hófust árið 2019. Hitaveituæðin var þá endurnýjuð og lögð undir árbotninn og stokkurinn rifinn en dregist hefur að opna gönguleiðina að nýju með brúagerð í staðinn.

Hitaveitustokkurinn árið 1942. Myndin er birt í fornleifaskráningu Borgarsögusafns árið 2024 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.Loftur Guðmundsson/Borgarsögusafn

Á fundi í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í vikunni fyrir jól, þegar staða hjólreiðaáætlunar borgarinnar var kynnt, voru framkvæmdir við endurheimt gönguleiðarinnar boðaðar á árinu 2026. Í fréttatilkynningu frá borginni segir að þar hafi verið kynntar brýr sem koma í staðinn fyrir hitaveitustokkinn gamla.

Tveir strákar ganga eftir stokknum árið 1963 með fötu á milli sín. Sama mynd birtist í fornleifaskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur árið 2011 vegna endurnýjunar veitukerfa í Elliðaárdal. Hesthús Fáks til hægri en Toppstöðin fjær.Þjóðviljinn/Borgarsögusafn

„Þar sem áður var hitaveitustokkur sem gengið var yfir verður gerður stígur með þremur nýjum brúm. Hann mun meðal annars nýtast vel fyrir útivist í dalnum. Við hönnun hans er horft til þess að miðla og varðveita verksummerki um starfsemi Veitna á svæðinu og er framkvæmdin í samstarfi við Veitur,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Nýi stígurinn verður 3,5 metra breiður og 250 metra langur.Reykjavíkurborg

Í kynningu umhverfis- og skipulagsráðs sumarið 2023 á verkefninu sagði:

„Stokkurinn var löngum mikilvæg gönguleið inn í borgina en nú er búið að rífa hann. Stöplarnir standa eftir og verða þeir nýttir í undirstöður undir brýrnar, sem verða 3,5 metrar á breidd.“

Gömlu stöplarnir verði nýttir undir nýju brýrnar.Reykjavíkurborg

„Rautt rör, sem er 20 sentímetrar í þvermál, gengur eftir brúnni og aðlagar sig að þörfum hennar. Rörin sveigjast og breytast í ljós, útskot og fleira með þessa vísun í hitaveituna. Ljósin eru lág og vel er gætt að því að lýsingin hafi ekki truflandi áhrif á umhverfið eða berist út í árnar. Þau verða dempuð á skynjurum svo lýsingin eykst aðeins þegar farið er um þessa gönguleið.“

Rauðu rörin verða nýtt sem ljósastaurar.Reykjavíkurborg

„Á áningarstaðnum verða rörin líka notuð til að móta set og leiksvæði, til dæmis í hringlaga formum, sem byggja á algengri gerð heitra potta í sundlaugum borgarinnar.“

Áningarstaður verður í Elliðaárhólma.Reykjavíkurborg

Tengdar fréttir

Bæta hjóla- og göngustíga í Breiðholti, Grafarholti og í Elliðaárdal

Áætlað er að hefja framkvæmdir við hjóla- og göngustíga við Suðurfell í Breiðholti, Vínlandsleið í Grafarholti og í Elliðaárdal í stað stokks á næsta ári. Til viðbótar verður haldið áfram við gerð stíga í Skógarhlíð og við Arnarnesveg í samvinnu með Betri samgöngum. Áætlað er að framkvæmdir við sérstaka hjólastíga í borginni verði um fjórir kílómetrar á árinu 2026 þannig að í lok árs verði þeir rúmlega 50 kílómetrar.

Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaár opnast

Báðar nýju göngu- og hjólabrýrnar yfir Elliðaár í Víðidal, eða Dimmu, eins og áin nefnist einnig á þessum kafla, hafa verið opnaðar umferð. Vinna við þær er á lokametrunum en búið að tengja þær báðar við stígakerfi Elliðaárdals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×