Innlent

Býst við fleiri hlýjum árum og hita­metum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristín Björg er sérfræðingur á sviði veðurrannsókna hjá Veðurstofunni.
Kristín Björg er sérfræðingur á sviði veðurrannsókna hjá Veðurstofunni. Vísir/Sigurjón

Árið 2025 var það hlýjasta hér á landi frá upphafi mælinga og sérfræðingur veðurstofunnar segir meiri líkur en minni á fleiri hlýindaárum í nánustu framtíð. Hún telur líklegt að fleiri hitamet verði slegin hér á landi á næstu árum.

Meðalhiti í byggðum landsins var 5,2 stig árið 2025 sem er það mesta frá upphafi mælinga og meira en einni gráðu heitara en meðaltal áranna 1991-2020. Síðustu þrjú ár hafa verið þau hlýjustu á heimsvísu og þau hlýindi mælast sömuleiðis hér við land.

„Það eru meiri líkur en minni að maður fái svona hlý ár núna og þegar maður hefur verið að skoða hlýindaröðina á árunum þá eru þau öll fremur nýleg,“ sagði Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna hjá Veðurstofunni.

Hlýindin útbreidd um allt land

Fjölmörg hitamet féllu á síðasta ári. Maí og júlí voru þeir hlýjustu frá upphafi mælinga og þá voru landsmet slegin á Egilsstöðum í maí og ágúst og á Seyðisfirði í desember en aldrei hafði jafn mikill hiti mælst á landinu í þessum mánuðum.

Hitabylgjan í maí var að sögn Kristínar óvenjulegasti atburðurinn en þá náði hitinn meðal annars tuttugu stigum tíu daga í röð en slíkir dagar hafa að meðaltali verið þrír í maímánuði síðastliðin ár. 

„Hlýindin voru líka mjög útbreidd um allt land, þau voru ekki einskorðuð við einhvern ákveðinn landshluta eða slíkt. Það var mjög óvenjulegt og maí var langhlýjasti maí frá upphafi. Líka vorið, apríl og maí var líka hlýjasta vorið frá upphafi,“ en bætir Kristín Björg við en dagana 17. - 18. maí fór hitinn yfir tuttugu stig á meira en helmingi allra veðurstöðva landsins.

Líklegt að hitametið falli

Þá var júlí afar hlýr og á landinu öllu mældisti hiti tuttugu stig eða meira í tuttugu og átta daga júlímánaðar. Gráðurnar 29,8 á Egilsstöðum í ágúst var hæsti hiti sem mældist á árinu hér á landi.

„Það hafði ekki mælst eins hár hiti neins staðar á landinu í áttatíu ár en við erum ekki enn búin að ná landsmetinu sem eru 30,5 stig og mældist á Teigarhorni,“ segir Kristín.

Áttu von á að það muni falla á næstunni? 

„Við erum allavega komin mjög nálægt því þannig að já, mjög líklega mun það falla bráðlega.“


Tengdar fréttir

2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga. Meðalhiti í byggðum landsins var 5,2 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og hefur aldrei verið hærri. Áður var árið 2014 hlýjasta árið á landsvísu.

Hitamet aldarinnar slegið

Hitamet þessarar aldar var líklega slegið á flugvellinum á Egilsstaðaflugvelli fyrr í dag þar sem hiti mældist 29,8 gráður. Það mun vera hæsti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði á Íslandi.

Hitinn fór í 19,8 stig og desem­ber­metið slegið

Það blés hraustlega á landinu í gær og í nótt, sérstaklega um landið norðvestanvert. Sunnanáttinni fylgdu mikil hlýindi og í gærkvöldi var desemberhitametið slegið í hnjúkaþey á Seyðisfirði en þar komst hitinn í 19,8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×