Fótbolti

Tekur við Celtic í annað sinn á tíma­bilinu

Aron Guðmundsson skrifar
Martin O´Neill er mættur aftur í þjálfaraúlpuna hjá Celtic.
Martin O´Neill er mættur aftur í þjálfaraúlpuna hjá Celtic. Vísir/Getty

Gamli refurinn Martin O´Neill hefur aftur verið ráðinn þjálfari skoska stórliðsins Celtic, nú út tímabilið, eftir að maðurinn sem tók við stjórnartaumunum af honum í desember á síðasta ári entist aðeins þrjátíu og þrjá daga í starfi.

Greint var frá því fyrr í dag að Wilfried Nancy hafi verið rekinn frá Celtic eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í átta leikjum. Nancy, sem var áður þjálfari Columbus Crew í MLS deildinni í Bandaríkjunum, entist því aðeins þrjátíu og þrjá daga í starfi. 

Celtic tapaði sex af átta leikjum sínum undir stjórn Frakkans en kornið sem fyllti mælinn var 3-1 tap á heimavelli gegn erkifjendunum í Rangers um síðastliðna helgi. 

Eigendur Celtic virðast hvorki vita hvað snýr upp eða niður þegar kemur að þjálfaramálum liðsins en nú í kvöld var greint frá því að Norður-Írinn Martin O´Neill hefði verið ráðinn þjálfari Celtic út tímabilið. 

Téður O´Neill, sem hafði fyrr á sínum ferli stýrt Celtic, tók við liðinu á nýjan leik til bráðabirgða á síðasta ári þegar að Brendan Rodgers hætti sem stjóri Celtic undir lok október. O´Neill stýrði Celtic í átta leikjum fram í desember og vann liðið sjö af þeim leikjum en hann þurfti svo að víkja fyrir Nancy sem hefur nú verið látinn fara.

Þrátt fyrir dapurt gengi upp á síðkastið situr Celtic í 2.sæti skosku úrvalsdeildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Hearts en með sama stigafjölda og Rangers en með betri markatölu í 2.sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×