Neytendur

Segir leigu­sala hækka leigu í takt við skerðingu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Yngvi Ómar Sigrúnarson er varaformaður Leigjendasamtakanna.
Yngvi Ómar Sigrúnarson er varaformaður Leigjendasamtakanna. Vísir/Vilhelm

Á fjórtán árum hefur leiguverð hækkað nærri fimmfalt meira á Íslandi en meðaltal Evrópu. Á meðan launaþróun og húsnæðisverð í Evrópu haldast í hendur, rýkur verðið upp hér á landi. Formaður Leigjendasamtakanna segir skatt á leigusala eingöngu hafa áhrif á leigjendur. 

Leigjendasamtökin luku nýlega greiningu á húsnæðismarkaðinum hér á landi þar sem hann er borinn saman við markaðinn í Evrópu. Þar kemur fram að húsnæðisverð og launavísitala ESB-ríkja haldist hönd í hönd en frá 2014 hafi verðið hér á landi rokið úr öllu valdi, sé miðað við launavísitölu. Laun hafi á tíu árum hækkað um 70 prósent en húsnæðisverð um 130 prósent. Leiguverð hækki í takt við húsnæðisverð.

Húsnæðisbætur hækki leigu

Yngvi Ómar Sigrúnarson, varaformaður Leigjendasamtakanna, segir vandann margþættan.

„Af því að það er skortur á húsnæði þá hlaupa fjársterkir aðilar í að kaupa upp íbúðir í stórum stíl. Það sést á þróuninni í greiningunni okkar að fjárfestar og leigusalar eru orðnir miklu stórtækari í íbúðakaupum en þeir voru. Það er nánast tvöföldun. Þeir leigja þær út með ákveðnum ríkisstyrk, sem eru húsnæðisbætur. Þær hafa verið að hækka gríðarlega og milljarður á mánuði er greiddur til leigusala. Þetta er til leigusala, ekki leigjendanna. Því þeir greiða þetta beint í leigu,“ segir Yngvi. 

Leigusalar hækki leiguna í takt við skerðingu frítekjumarks

Stjórnvöld greiði tæpa ellefu milljarða á ári í leigubætur, sem fari beint í vasa leigusala. Þá sé áhyggjuefni hve lítið úrval sé af félagslegu húsnæði á Íslandi. Hlutfallið er tæp fjögur prósent hér, samanborið við sextán prósent í Svíþjóð, tuttugu prósent í Danmörku og 29 prósent í Hollandi. 

Þá hafi breyting á frítekjumarki vegna leigutekna af íbúðarhúsnæði sem tók gildi um áramótin haft slæm áhrif. Frítekjumarkið var fimmtíu prósent en er nú 25 prósent. Leigusalar greiddu áður ellefu prósent leigutekna í fjármagnstekjuskatt en eftir breytinguna greiða þeir 16,5 prósent.

„Við sjáum þetta inni á Facebook-hópum eins og Fjármálatips. Þar eru óteljandi færslur þar sem leigusalar ræða hversu mikið þeir þurfa að hækka leiguna til að ná þessum skattahækkunum til baka. Þannig þeir eru strax að plana það. Skattur á leigutekjur er eitthvað sem leigutaki borgar. Eins og ef ég fer út í búð, kaupi brauð og greiði virðisaukaskatt. Þetta er alveg sambærilegt því þetta endar alltaf á því að leigjandinn borgar,“ segir Yngvi. 

Hemja verðbólguna

Leigjendasamtökin leggja til að tekið verði upp viðmiðunarverð leigu.

„Við þurfum eitthvað slíkt til að hemja verðbólguna á leigumarkaði og til að rétt fara til baka og lagfæra þessar gríðarlegu hækkanir sem hafa orðið á leiguhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Þetta tengist allt saman,“ segir Yngvi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×