Enski boltinn

Manchester United bað Fletcher um að stýra liðinu í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darren Fletcher þakkar stuðningsmönnum Manchester United fyrir leikinn í gærkvöldi.
Darren Fletcher þakkar stuðningsmönnum Manchester United fyrir leikinn í gærkvöldi. Getty/Robbie Jay Barratt

Darren Fletcher segist ætla að vera á hliðarlínunni í bikarleik Manchester United gegn Brighton á sunnudag.

Fletcher, sem er fyrrverandi miðjumaður United, þjálfaði átján ára lið félagsins áður en hann tók við sem bráðabirgðastjóri. Hann stýrði liðinu í 2-2 jafntefli gegn Burnley í gærkvöldi eftir að Ruben Amorim var rekinn sem aðalþjálfari.

Félagið hefur rætt við Ole Gunnar Solskjær og Michael Carrick um að taka við sem bráðabirgðastjóri fram á sumar. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun og Fletcher mun halda starfinu í að minnsta kosti einn leik í viðbót.

„Þeir hafa tilkynnt mér að þeir vilji að ég stýri liðinu á sunnudag,“ sagði Fletcher á blaðamannafundi eftir leikinn á móti Burnley á Turf Moor. „Það var tilfinning fyrir því frá og með mánudeginum að svo gæti farið, en við vildum einbeita okkur að Burnley,“ sagði Fletcher.

„En já, mér er falið að stýra liðinu á sunnudag, þannig að öll mín einbeiting og orka fer í það núna,“ sagði Fletcher.

United kom til baka eftir að hafa lent undir gegn Burnley og náði 2-1 forystu þökk sé tveimur mörkum frá Benjamin Sesko áður en Burnley jafnaði metin.

„Þeir sýndu frammistöðu sem hefði átt að vinna leikinn. Við sköpuðum mikið af færum, áttum 30 skot, björgun á marklínu, mark sem var dæmt af. Ef maður lítur á það þannig, þá hefðum við átt að vinna leikinn,“ sagði Fletcher.

„Þetta var ekki fullkomið; við byrjuðum hægt,“ sagði hann. „Við skoruðum tvö frábær mörk. Það er enn margt sem þarf að vinna í, en ég var virkilega ánægður með framlag þeirra,“ sagði Fletcher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×