Enski boltinn

Dómarar lyfjaprófaðir vegna kókaínneyslu Coote

Ágúst Orri Arnarson skrifar
David Coote hefur smánað dómarastéttina á Englandi. 
David Coote hefur smánað dómarastéttina á Englandi.  James Gill - Danehouse/Getty Images

Dómarasamtökin á Englandi eru nú með það til skoðunar hjá sér að lyfjaprófa dómara, eftir að fyrrum dómarinn David Coote sagði frá sex ára langri kókaínneyslu sinni í dómssal í gær.

Dómarar eru yfirleitt ekki lyfjaprófaðir í íþróttum, frekar en þjálfarar, liðsstjórar eða vatnsberar, vanalega er bara athugað með íþróttafólkið sjálft.

Reyndar er ekkert í regluverki dómarasamtakanna (PGMOL) sem bannar sérstaklega notkun lyfja eða efna, en almenn lög gilda auðvitað um dómara eins og aðra.

David Coote greindi frá því í dómsal í gær, þegar hann var sakfelldur fyrir að framleiða barnaníðsefni, að hann hefði verið í virkri kókaínneyslu frá 2019 til 2025.

Á þeim tíma, eða frá 2018 til 2024, var hann dómari hjá bæði enska og evrópska knattspyrnusambandinu, en Coote sór fyrir það að kókaínneysla hans hefði ekki haft áhrif á ákvarðanatöku eða dómgreind.

Coote dæmdi síðast leik í ensku úrvalsdeildinni í október 2024 en var rekinn af enska knattspyrnusambandinu eftir að myndband þar sem hann úthúðaði Jürgen Klopp, þáverandi knattspyrnustjóra Liverpool, fór í dreifingu.

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, bannaði Coote frá störfum eftir að myndir af honum að sjúga hvítt duft í gegnum upprúllaðan peningaseðil á EM 2024 komu fram í dagsljósið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×