Enski boltinn

Fletcher segir leik­menn Man. Utd við­kvæma

Sindri Sverrisson skrifar
Darren Fletcher stýrði United í jafntefli gegn Burnley í síðustu viku og svo í tapi gegn Brighton í bikarleik í dag.
Darren Fletcher stýrði United í jafntefli gegn Burnley í síðustu viku og svo í tapi gegn Brighton í bikarleik í dag. Getty/Richard Sellers

Darren Fletcher segir leikmenn Manchester United enn hafa að miklu að keppa á þessari leiktíð þó að ljóst sé að hún verði sú stysta hjá félaginu síðan fyrir fyrri heimsstyrjöldina, eftir tapið gegn Brighton í ensku bikarkeppninni í dag. Þeir séu hins vegar viðkvæmir.

Helstu atvikin úr 2-1 sigri Brighton í dag, á Old Trafford, má sjá hér að neðan.

Fletcher var spurður út í sín skilaboð til næsta stjóra United, eftir að hafa nú stýrt liðinu í þeim tveimur leikjum sem til stóð í kjölfar brottreksturs Rúben Amorim fyrir tæpri viku.

„Sjálfstraust, að vera vanur því að spila ákveðinn leikstíl og leikkerfi. Þeir þurfa bara að standa saman. Það eru bara þeir sem eru í þessari stöðu og bara þeir sem geta gert eitthvað í því. Byggja upp sjálfstraustið, ná í nokkur úrslit, það verður kannski ekki alltaf fallegt,“ sagði Fletcher.

Búist er við því að Ole Gunnar Solskjær eða Michael Carrick taki við United og stýri liðinu út leiktíðina. Liðið á ekki lengur neina von um titil og féll úr leik á fyrstu hindrun í bæði bikarnum og deildabikarnum.

Þá er ljóst að United, sem ekki er í neinni Evrópukeppni, mun aðeins spila 40 leiki á þessari leiktíð en það hefur ekki gerst síðan tímabilið 1914-15, eða fyrir meira en hundrað árum síðan. Það verður því mikil áskorun fyrir nýjan stjóra að koma sjálfstrausti í leikmenn, fyrir komandi leiki við Manchester City og Arsenal.

„Ég held að það hafi sést í dag að leikmennirnir eru viðkvæmir en þeir verða að bregðast við. Sjálfstraust er eitt það öflugasta í fótbolta þannig að þegar þú hefur það ekki þarftu að leggja hart að þér og þá kemur sjálfstraustið aftur,“ sagði Fletcher.

Skilur vonbrigði stuðningsmanna

„Þetta er undir þeim [leikmönnunum] komið, þeir þurfa að tryggja að þeir hafi miklu að keppa á þessu tímabili. Þetta lið er enn nógu gott til að ná árangri á þessu tímabili en þeir verða að leggja hart að sér,“ sagði Fletcher sem sýnir svekktum stuðningsmönnum United skilning:

„Úr leik í bikarkeppnum, aðeins leikir í ensku úrvalsdeildinni eftir… Stuðningsmennirnir voru ekki ánægðir í lokin en þeir hafa fullan rétt á að láta í ljós óánægju sína. Andrúmsloftið var ekki eitrað en þeir sýndu vonbrigði sín. Ég er viss um að ef leikmennirnir sýna rétt viðbrögð munu stuðningsmennirnir styðja við bakið á þeim eins og þeir gera alltaf því það er enn mikið í húfi í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×