Fótbolti

Raphinha tryggði Barca titil í fjörugum El Clásico

Sindri Sverrisson skrifar
Raphinha fagnar marki gegn Real í kvöld en hann skoraði tvö.
Raphinha fagnar marki gegn Real í kvöld en hann skoraði tvö. Getty/Jose Breton

Hinn brasilíski Raphinha var hetja Barcelona í El Clásico úrslitaleik gegn Real Madrid í spænska ofurbikarnum í fótbolta, þar sem Börsungar unnu 3-2 sigur.

Hansi Flick hampaði því titli á kostnað Xabi Alonso sem verið hefur undir mikilli pressu í vetur á sinni fyrstu leiktíð með Real.

Staðan var 2-2 í hálfleik eftir hreint ótrúlegan uppbótartíma með þremur mörkum. Raphinha hafði komið Barcelonaí 1-0 á 36. mínútu en Vinicius Junior jafnaði metin upp á sitt einsdæmi fyrir Real, sem var með Kylian Mbappé á bekknum þar til að korter var eftir.

Robert Lewandowski skoraði á fjórðu mínútu uppbótartímans í fyrri hálfleik en þá var enn tími fyrir Gonzalo Garcia til að jafna fyrir Real.

Með sjö mörk í síðustu fimm

Í seinni hálfleiknum skoraði Raphinha sitt annað mark á 73. mínútu og það reyndist sigurmarkið. Hann hefur nú skorað sjö mörk í síðustu fimm leikjum.

Barcelona missti Frenkie de Jong af velli með beint rautt spjald þegar örfáar mínútur voru eftir en Real tókst ekki að nýta sér liðsmuninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×