Handbolti

Stuðnings­menn Fær­eyinga gista í ferju í Oslóarhöfn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Færeyingar hafa fjölmennt á stórmót landsliðanna sinna en þeir hafa komist á EM eða HM í bæði karla- og kvennaflokki.
Færeyingar hafa fjölmennt á stórmót landsliðanna sinna en þeir hafa komist á EM eða HM í bæði karla- og kvennaflokki. Getty/Marco Steinbrenner

Færeyingar verða áberandi á Evrópumótinu í handbolta og þeir fá líka góðan stuðning í stúkunni. Riðill færeyska landsliðsins fer fram í Noregi og þangað munu Færeyingar fjölmenna.

Færeyingar eru í D-riðli sem er spilaður í Bærum í útjaðri Osló. Þeir eru útsjónarsamir þegar kemur að ferðatillögu og gistingu.

Í haust pöntuðu Færeyingar nefnilega sérstaka ferju sem mun flytja um þúsund stuðningsmenn frá Þórshöfn til Óslóar. Ferjan mun liggja við bryggju við rætur Akershús-virkisins meðan riðlakeppnin stendur yfir.

„Komdu með stuðningsmannaskipinu Norrænu til Óslóar og studdu færeyska landsliðið á EM 2026. Á meðan við erum í Ósló verða veitingastaðir og barir opnir eins og venjulega,“ skrifaði þjóðarútgerðin Smyril Line.

Þátttakan meðal færeyskra handboltaaðdáenda hefur verið mikil. Ferðamálastjórinn Henny á Líknargøtu segir í samtali við NTB að ferðin sé uppseld og um þúsund farþegar muni ferðast með ferjunni Norrænu.

Alls búa um 55.000 manns á eyjunum og þúsund farþegar þýðir því að um einn af hverjum fimmtíu Færeyingum er á leið til norsku höfuðborgarinnar.

Færeyskir stuðningsmenn munu síðan nota ferjuna sem gististað meðan á mótinu stendur.

Færeyska landsliðið er í riðli með Slóveníu, Svartfjallalandi og Sviss. Komist þeir færeysku áfram lenda þeir í milliriðli með Íslandi en sá fer fram í Malmö í Svíþjóð.

Það má búast við því að ferjan sigli þangað næst komist færeyska landsliðið áfram eins og margir búast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×