Handbolti

„Hann er góð skytta en ekkert sér­stakur horna­maður“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Einar segir landsliðsþjálfarann þurfa að finna betri lausnir í hægra horninu.
Einar segir landsliðsþjálfarann þurfa að finna betri lausnir í hægra horninu. vísir / bjarni

Einar Jónsson hefur ekki mikla trú á tilraunaverkefni Snorra Steins Guðjónssonar, landsliðsþjálfara í handbolta, sem spilar skyttunni Teiti Erni Einarssyni í hægra horninu.

Einar var heilt yfir mjög hrifinn af því sem hann sá í æfingaleikjunum sem Ísland spilaði um helgina en hann hefur örlitlar áhyggjur af sóknarleiknum.

Haukur Þrastarson var nefndur í því samhengi en hann komst ekki nógu vel inn í hlutina um helgina og svo hefur Einar ekki mikla trú á Teiti Erni Einarssyni í hægra horninu.

Teitur Örn spilar alla jafnan sem skytta en getur leyst hornastöðuna og var valinn í landsliðshópinn fyrir EM sem hornamaður.

„Það kom ekki vel út sóknarlega, það verður bara að segjast alveg eins og er“ segir Einar.

„Varnarlega var hann fínn og það er ágætt, en það eru einhver atriði sem maður setur spurningamerki við. Ég veit ekki alveg hvernig þeir ætla að leysa þetta á mótinu, það kemur kannski betur í ljós þegar á reynir. Hann [Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari] var augljóslega að gefa Teiti fullt af mínútum og prófa þetta mikið en mér fannst það ekki ganga upp. Allavega ekki sóknarlega. Þannig að ég hugsa að við séum ekki að fara að sjá Teit spila mikið í horninu á þessu móti. Með fullri virðingu, hann er góð skytta en ekkert sérstakur hornamaður.“

Hugmynd landsliðsþjálfarans, með því að hafa Teit í horninu, var að hann kæmi öflugur inn í vörnina og gæti leyft öðrum leikmönnum, eins og til dæmis Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, að hvíla sig í horninu á meðan. Í leiðinni fengi líka aðalhornamaður landsliðsins, Óðinn Þór Ríkharðsson, hvíld á bekknum.

„Það verður bara að koma í ljós á mótinu hvernig þeir leysa þetta en ég held að þeir muni finna aðrar lausnir en að láta Teit spila mikið sóknarlega í horninu“ segir Einar en viðtalið hann má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Einar Jónsson um Ísland á EM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×