Handbolti

Fengu sím­tal frá brjáluðum Gumma Gumm um nið­dimma nótt

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson þjálfaði bæði Aron Pálmarsson og Loga Geirsson í íslenska landsliðinu
Guðmundur Guðmundsson þjálfaði bæði Aron Pálmarsson og Loga Geirsson í íslenska landsliðinu Vísir/Samsett

Aron Pálmarsson og Logi Geirsson, fyrrverandi liðsfélagar í íslenska landsliðinu í handbolta, urðu fyrir því óláni á sínum tíma að vekja óvart þáverandi landsliðsþjálfarann Guðmund Guðmundsson um niðdimma nótt.

Aron Pálmarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði íslenska landsliðsins, sem lagði á síðasta ári skóna á hilluna, var leynigestur í nýjasta þætti Biðstofunnar þar sem að hann sagði skemmtilega sögu af sér og Loga Geirs á einum tímapunkti í landsliðinu. 

„Þetta var árið 2010. Við vorum hvorugir búnir að spila mínútu á mótinu, náttúrulega alveg brjálaðir upp á herbergi og vorum vakandi til að verða þrjú eða fjögur að nóttu til upp á herbergi. Logi ákveður að teikna upp Frönsku Rivíeruna á vegg á hótelherberginu. Ég er þarna tvítugur, nýkominn í Kiel, með svona tuttugu evrur inn á kortinu.“

Logi hafi þessa nótt sagt Aroni allt um frönsku rivíeruna með tilheyrandi bendingum og banki í vegginn á hótelherberginu til þess að styðja við sitt mál. Svo hringir sími á herberginu.

Logi Geirsson í leik með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.Vísir/Getty

„Þá er Gummi Gumm í herberginu við hliðina á okkur, hinu megin við vegginn sem Logi hafði verið að banka í.“

Aron svaraði umræddu símtali þar sem Guðmundur á að hafa spurt hvað væri eiginlega í gangi. Aron var fljótur að rétta þá reynsluboltanum í herberginu, Loga, símann og það stóð ekki á svörum á þeim bænum:

„Já Gummi við erum að fara sofa,“ segir Aron að Logi hafi sagt og svo haldið áfram. „Þetta er ekkert mál við erum að fara sofa.“

Að sögn Arons var Gummi brjálaður í símanum í herberginu hliðina á og spurði hvort þeir væru ekki farnir að sofa.

„Gummi var geggjaður,“ bætti Logi við eftir sögu Arons. „Ég sakna hans alltaf meira og meira.“

Biðstofuna, í umsjón Helgu Margrétar Höskuldsdóttur og sérfræðingum RÚV í kringum EM í handbolta, má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×