Fótbolti

Mikael Egill spilaði nær allan leikinn í sterkum sigri

Aron Guðmundsson skrifar
Mikael Egill í leik með Genoa
Mikael Egill í leik með Genoa Vísir/Getty

Íslenski landsliðsmaðurinn í fótbolta, Mikael Egill Ellertsson, var á sínum stað í byrjunarliði Genoa sem hafði betur, 3-0 gegn Cagliari er liðin mættust í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. 

Cagliari var mun meira með boltann í leiknum og átti fleiri marktækifæri en tókst ekki að koma boltanum í netið í leik kvöldsins. 

Það gerði hins vegar Íslendingalið Genoa sem komst yfir strax á sjöundu mínútu með marki frá Lorenzo Colombo. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. 

Á þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik bættu heimamenn svo við tveimur mörkum til viðbótar og komust í stöðuna 3-0. Morten Frendrup og Leo Östigard skoruðu mörkin. 

Í kjölfarið var Mikael Egill tekinn af velli á 81.mínútu en Genoa sigldi heim 3-0 sigri í höfn. Sigurinn sér til þess að Genoa stekkur upp fyrir Cagliari í töflunni en liðin eru með jafnmörg stig í fimmtánda og sextánda sæti deildarinnar eftir tuttugu leiki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×