Innlent

Raf­magnið í skemmunni þótti „slysagildra“

Agnar Már Másson skrifar
Slökkvilðsmenn réðu nðurlögum eldsins. Ekki er víst hvaðan eldurinn kviknaði.
Slökkvilðsmenn réðu nðurlögum eldsins. Ekki er víst hvaðan eldurinn kviknaði. Vísir/Lýður Valberg

Ekki er ljóst hvað olli þeim mikla eldi sem braust út í skemmu í Gufunesi í dag. Fyrir rúmlega tveimur árum höfðu þáverandi leigjendur miklar áhyggjur af aðbúnaði í húsnæðinu, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, og lýstu rafmagninu í húsinu sem „slysagildru“ á sínum tíma.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út vegna logandi vöruskemmu í Gufunesi um klukkan 17 í dag. Mikið eldhaf blasti við á vettvangi en slökkvilið hafði ráðið niðurlögum eldsins að mestu um klukkan 20. 

Framleiðslufyrirtækið TrueNorth leigir húsið sem geymslu og fjöldi muna skemmdist í eldinum, að sögn stjórnarformanns félagsins.

Ekki liggur fyrir hvað olli eldinum en í febrúar 2024 birti Framfarafélag Gufuness færslu á Facebook-síðu sinni vegna þess að Reykjavíkurborg hafði auglýsingt skemmuna til leigu. Skemman hefur meðal annars verið kölluð Skemma 7.  

Framfarafélagið beindi spurningum til borgaryfirvalda um hvort búið væri að gera úrbætur á því sem ábótavant hafði verið meðan skapandi starf var í húsinu.

Listahópurinn Fúsk hafði nefnilega um hríð fengið gjaldfrjáls afnot af skemmunni, sem var í eiginlegri niðurníslu, en borgin ákvað svo að setja skemmuna á leigu árið 2023. 

Fúsk-hópurinn ákvað í fyrstu að leigja skemmuna sjálfur til sex mánaða en forsvarmenn hópsins voru ósáttir við að Reykjavíkurborg hefði ekkert gert til þess að bæta aðstöðuna, þrátt fyrir að þau þyrftu nú að greiða nú fyrir afnot af húsnæðinu.

„Við erum að leigja ósamþykkta eign, höfum enga klósettaðstöðu, ekki aðgang að vatni, hvorki heitu né köldu og rafmagnið er slysagildra,“ er haft eftir lýsingum Fúskara í fyrrnefndu opnu bréfi Framfarafélags Gufuness. „Undanfarið hefur svo allt verið á floti og við þurft að hringja út dælubíla.”

Ekki liggur fyrir hvort einhverjar úrbætur hafi verið gerðar á húsinu síðan þá. Framfarafélag Gufuness velti því þá fyrir sér í opnu bréfi sínu hvort búið væri að leggja skólplagnir svo hægt væri að setja upp klósettaðstöðu og hvort nýtt rafmagn hefði verið lagt, hvort vatnslagnir fyrir heitt og kalt vatn væru til staðar og hvort húsnæðið væri enn ósamþykkt.

„Til þess að hægt sé að byggja upp skapandi starfsemi á svæðinu er nauðsynlegt að borgin sinni viðhaldi á húsnæðinu sem hún leigir út, hér eins og annars staðar,“ sagði í Facebook-færslu framfarafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×