Enski boltinn

Szoboszlai skoraði stór­glæsi­legt mark en var sakaður um van­virðingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominik Szoboszlai fagnar hér stórglæsilegu marki sínu fyrir Liverpool í bikarsigrinum á móti Barnsley á Anfield í gær.
Dominik Szoboszlai fagnar hér stórglæsilegu marki sínu fyrir Liverpool í bikarsigrinum á móti Barnsley á Anfield í gær. Getty/Robbie Jay Barratt

Conor Hourihane, aðalþjálfari Barnsley, gagnrýndi Liverpool-leikmanninn Dominik Szoboszlai og sakaði hann um vanvirðingu í 4-1 bikarsigri Liverpool á liði hans eftir að miðjumaðurinn reyndi að gefa hælspyrnu innan eigin vítateigs.

Þetta var sérstakt kvöld fyrir Ungverjann sem hefði að öllu eðlilegu átt að vera hetja kvöldsins eftir stórglæsilegt mark en raunin varð aðeins önnur.

Szoboszlai skoraði fyrsta mark heimamanna á Anfield áður en Jeremie Frimpong tvöfaldaði forystuna. Adam Phillips minnkaði hins vegar muninn fyrir Barnsley skömmu fyrir hálfleik eftir misheppnaða tilraun Szoboszlai til að hreinsa boltann frá, aðeins nokkrum metrum frá eigin marki.

„Það er svo mögnuð tilfinning fyrir Adam að skora fyrir framan Kop-stúkuna. Hann er Liverpool-stuðningsmaður, kom upp úr akademíunni; þetta er eitthvað sem hann getur litið til baka á það sem eftir er ævinnar og sagt að hann hafi gert þetta. Ekki margir geta sagt það,“ sagði Conor Hourihane.

Vanvirðing af hálfu leikmanns þeirra

„En þetta var svolítil vanvirðing af hálfu leikmanns þeirra, satt best að segja. Ég held að hann geri þetta ekki á móti Chelsea eða Arsenal eða í Meistaradeildarleik. Ég er himinlifandi fyrir hönd Adams, en þetta var vanvirðing frá sjónarhóli leikmanns þeirra,“ sagði Hourihane.

Arne Slot, stjóri Liverpool, deildi einnig gremju sinni á blaðamannafundi eftir leik og viðurkenndi að mistök Szoboszlai hefðu stuðlað að taugatrekkjandi seinni hálfleik á Anfield.

Sem ég mun svo sannarlega deila með honum

„Ég hef mína skoðun á þessu sem ég mun svo sannarlega deila með honum,“ sagði Slot. „Þetta er ekki í fyrsta skipti – og nú er ég að tala almennt – sem við erum 2-0 yfir, það eru engin vandamál í leiknum og svo fáum við á okkur klaufalegt eða auðvelt mark. Þetta sker sig úr, jafnvel fyrir okkur,“ sagði Arne Slot.

„Það hjálpar ekki þegar þú færð á þig mark þegar þú ert 2-0 yfir. Hitt liðið er nálægt því að sætta sig við tap, sérstaklega ef þú getur haldið áfram og verið svona mikið með boltann. Yfirleitt hugsa lið: „Við erum 2-0 undir, við höfum varla snert boltann“. Þau eru yfirleitt ekki jafn ákveðin í vörninni og þá geturðu skorað þriðja og fjórða markið,“ sagði Slot.

„En ef þú gefur svo auðvelt mark, sem við höfum gert svo oft á þessu tímabili, þá breytist hugarfar hins liðsins mikið. Það er klárlega ekki til hjálpar fyrir okkur. Jafnvel í kvöld gátum við séð margt vera eins og við höfum séð svo oft á þessu tímabili,“ sagði Slot.

Liverpool dróst síðan gegn Brighton í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×