Handbolti

Á­rituð landsliðstreyja á upp­boði til styrktar Ljósinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, með árituðu landsliðstreyjuna.
Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, með árituðu landsliðstreyjuna. ljósið

Í gær fór treyja íslenska handboltalandsliðsins, árituð af öllum leikmönnum þess, á uppboð til styrktar Ljósinu.

Treyja handboltalandsliðsins er fyrsta íþróttatreyjan sem fer á uppboð á árinu 2026 en allur ágóði af sölu treyjanna rennur til Ljóssins.

Orri Rafn Sigurðarson, sem stendur fyrir góðgerðarverkefninu Gleðjum saman, útvegaði Ljósinu treyjurnar sem fara á uppboðið til styrktar Ljósinu.

„Gleðjum saman var hugmynd sem ég fékk þar sem mér fannst vanta fleiri jákvæðar hvetjandi fréttir í kringum íþróttir. Verkefnið byrjaði með 6-8 íþróttatreyjum frá nokkrum af atvinnumönnunum okkar í knattspyrnu og var gert til að skapa smá jákvæðni í kringum íþróttahreyfinguna og sýna samstöðu og sameingarkraft þeirra fyrir jólin. Gleðjum saman hefur hins vegar stækkað á ótrúlegum hraða og eru í dag skráðar sextíu treyjur hjá okkur. Sem er alveg frábært og ég er ótrúlega glaður með þær viðtökur sem verkefnið hefur fengið,“ segir Orri í samtali við Vísi.

„Mér fannst einnig mikilvægt að nýta kraft íþróttanna til þess að styðja og styrkja við gott málefni og kom Ljósið strax upp í hugann. Því miður þekki ég af eigin raun, líkt og svo margir aðrir, einstaklinga sem hafa greinst með krabbamein og/eða tapað þeirri baráttu. Ég setti mig því í samband við Ljósið fljótlega eftir fyrstu afhendingar í verkefninu og strax frá byrjun voru þau mjög jákvæð og spennt fyrir hugmyndinni. Við höfum svo þróað í góðu samstarfi herferð sem mun vera í gangi allt árið 2026 og verða fleiri en tíu treyjur sem fara til þeirra og allar tekjur sem koma af þeim renna óskert til Ljóssins.“

Uppboðið á treyju íslenska handboltalandsliðsins hófst á hádegi í gær og lýkur á miðvikudaginn í næstu viku, degi eftir síðasta leik Íslands í riðlakeppninni á EM.

Fara má inn á uppboðssíðuna með því að smella hér.

Íslenska liðið hefur leik á Evrópumótinu gegn Ítalíu á föstudaginn. Ísland etur kappi við Pólland á sunnudaginn og svo Ungverjaland á þriðjudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×