Innlent

Upp­lýsinga­kerfi liggur niðri og ekki hægt að hafa eftir­lit

Bjarki Sigurðsson skrifar
Farþegar á Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni.
Farþegar á Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Upplýsingakerfi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli liggur niðri. Ekki er hægt að framkvæma fullnægjandi eftirlit með farþegum á meðan. Umferð um flugvöllinn er ekki mikil þessa stundina og vonast er til að kerfið verði brátt komið í lag. 

Kerfið bilaði á fjórða tímanum í dag og á meðan er ekki hægt að fletta upp í gagnagrunnum sem lögreglan notar þegar fólk er að koma og fara frá landinu. Kerfið heitir SIS (Schengen Information System) og hefur bilunin fyrst og fremst áhrif á þriðja ríkis borgara. 

„Ef upplýsingakerfið liggur niðri getum við ekki framkvæmt fullnægjandi landamæraeftirlit. En akkúrat núna er umferðin þannig að þetta eru mest megnis brottfarir, þannig þetta hefur áhrif á brottförina fremur en komuna inn í landið,“ segir Ómar Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. 

Samkvæmt flugáætlun eiga tvær vélar að lenda á vellinum á næstu sex tímum, EasyJet-vél frá Manchester í Englandi og Wizz Air-vél frá Katowice í Póllandi. Báðar vélar fljúga aftur til baka skömmu eftir lendingu og gætu farþegar þá lent í vandræðum verði kerfið ekki komið í lag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×