Handbolti

Meðal­aldur ís­lenska lands­liðsins einn sá hæsti á EM

Aron Guðmundsson skrifar
Hinn fertugi Björgvin Páll Gústavsson er aldursforsetinn í landsliði Íslands. Reynslubolti í markinu sem hægt er að treysta á.
Hinn fertugi Björgvin Páll Gústavsson er aldursforsetinn í landsliði Íslands. Reynslubolti í markinu sem hægt er að treysta á. vísir/Anton

Meðalaldur íslenska karlalandsliðsins er einn sá hæsti af þeim landsliðum sem taka þátt á komandi Evrópumóti í handbolta.

Þetta kemur fram í tölfræðilegri samantekt EHF fyrir komandi stórmót sem hefst á fimmtudaginn kemur. 

Meðalaldur leikmannahóps íslenska karlalandsliðsins er 27,73 ár sem gerir hópinn að þeim fjórða elsta á Evrópumótinu. 

Aðeins Svíþjóð, Frakkland og Danmörk hafa yfir að skipa leikmannahópi með hærri meðalaldur en Ísland á mótinu. 

Ríkjandi heims- og Ólympíumeistarar Danmerkur tróna á toppnum með þann leikmannahóp sem hefur hæsta meðalaldurinn (28,6 ár) en liðið er á sama tíma talið sigurstranglegast á komandi móti. 

Það er landslið Georgíu sem er býr yfir leikmannahópnum með lægsta meðalaldurinn upp á 23,66 ár.

Ísland hefur leik á komandi Evrópumóti á föstudaginn kemur gegn Ítalíu í F-riðli en auk þessara liða skipa Pólland og Ungverjaland riðil Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×