Fótbolti

Skipti Orra inn og út á nokkrum mínútum: „Ó­á­sættan­legt“

Aron Guðmundsson skrifar
Orri Steinn hefur verið að ganga í gegnum krefjandi meiðsli en er mættur aftur inn á völlinn. Hann fékk hins vegar að upplifa annars konar krefjandi reynslu í kvöld.
Orri Steinn hefur verið að ganga í gegnum krefjandi meiðsli en er mættur aftur inn á völlinn. Hann fékk hins vegar að upplifa annars konar krefjandi reynslu í kvöld. Vísir/Getty

Stuðningsmenn Real Sociedad eru margir hverjir æfir út í þjálfara liðsins og furða sig á framkomu hans í garð Orra Steins Óskarssonar í kvöld í leik liðsins gegn Osasuna.

Real Sociedad tók á móti Osasuna í spænska bikarnum í kvöld og Orri Steinn, sem er nýstiginn upp úr meiðslum var á meðal varamanna Sociedad sem lentu snemma leiks tveimur mörkum undir.

Þeir náðu hins vegar að minnka muninn og jafna svo leikinn í stöðuna 2-2 með mörkum frá Benat Turrientes og Igor Zubeldia á síðasta stundarfjórðungi venjulegs leiktíma og þar með knýja fram framlengingu.

Orri Steinn hafði áður komið inn á sem varamaður í stöðunni 2-1 á 89.mínútu en við upphaf framlengingarinnar var hann tekinn af velli og var í raun aðeins nokkrar mínútur innan vallar.

Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Þar hafði Real Sociedad betur og tryggði sér þar með sæti í átta liða úrslitum spænska bikarsins.

Sjá mátti stuðningsmenn Real Sociedad furða sig á ákvörðun Pellegrino Matarazzo, þjálfara liðsins, í færslum á samfélagsmiðlum og óljóst á þessari stundu hvers vegna hann ákvað að skipta Orra af velli skömmu eftir að hafa sett hann inn á. Hvort um sé að ræða meiðsli hjá landsliðsfyrirliðanum eða hvort að breytingin hafi verið af taktískum ástæðum verður að koma í ljós með tímanum.

Hið minnsta virðast við fyrstu sýn meiðsli ekki hafa verið að plaga íslenska landsliðsfyrirliðann á nýjan leik en væntanlega verður Pellegrino spurður út í ástæðuna fyrir ákvörðun sinni í viðtölum seinna í kvöld. 

„Rautt spjald á Pellegrino,“ skrifar einn stuðningsmaður Sociedad í færslu á X. „Hvernig hann kemur fram við Orra með þessu er óásættanlegt. Þetta er ekki rétta leiðin fyrir okkur til þess að fá níuna okkar til baka.“

Annar stuðningsmaður segir ákvörðun Pellegrino skammarlega.

„Þú setur hann inn á í þeirri von um að jafna leikinn. Við jöfnum leikinn en í stað þess að halda honum inn á, tekur þú hann út af en ekki Mikel Oyarzabal. Vandræðalegt.“

Þá segist annar stuðningsmaður liðsins í kaldhæðni eiginlega vona að meiðsli séu að plaga Orra. 

„Því ef ekki þá ættu þið að rifta samningi hans og leyfa honum að finna hamingjuna á nýjum stað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×