Handbolti

Lindgren segir að þetta verði ár Ís­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Ola Lindgren segir að helsta spurningamerkið varðandi íslenska landsliðið sé jafnan markvarslan. Viktor Gísli Hallgrímsson mætir nú á EM sem leikmaður eins besta liðs heims, Barcelona.
Ola Lindgren segir að helsta spurningamerkið varðandi íslenska landsliðið sé jafnan markvarslan. Viktor Gísli Hallgrímsson mætir nú á EM sem leikmaður eins besta liðs heims, Barcelona. vísir/Anton

Ola Lindgren, fyrrverandi þjálfari og lykilleikmaður sænska landsliðsins í handbolta, hefur gríðarlega trú á íslenska landsliðinu fyrir komandi Evrópumót.

„Ég held að þetta verði ár Íslands,“ sagði Lindgren í handboltahlaðvarpinu Handbollspodden í Svíþjóð.

Ísland hefur leik á EM á föstudaginn klukkan 17, með leik við Ítalíu, spilar við Pólland á sunnudaginn og svo Ungverjaland næsta þriðjudag. Tvö liðanna komast svo áfram í milliriðla.

Veit ekki hversu oft maður hefur talað um þetta

Riðill Íslands er spilaður í Kristianstad, þar sem Lindgren þjálfaði um árabil, en hann er í dag landsliðsþjálfari Finnlands. Lindgren veit allt um það hvað þarf til að vinna EM því sem leikmaður vann hann mótið fjórum sinnum, í kringum aldamótin, auk þess að vinna HM tvisvar og fjölda fleiri verðlauna með gullkynslóð Svía.

Nú þegar sérfræðingar velta vöngum yfir því hvaða lið nái lengst á EM í ár er Lindgren sannfærður um að Ísland muni slá í gegn.

„Ég veit ekki hversu oft maður hefur talað um það í aðdraganda stórmóts hversu mikill efniviður og hæfileikar eru í þessu liði. Ég held að þetta verði ár Íslands, að þeir geti farið virkilega langt og komist í undanúrslit,“ sagði Lindgren.

Að flestra mati lenti Íslands í „þægilegri“ helmingi mótsins og sleppur við að mæta til dæmis Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi og Spáni á leiðinni í undanúrslit. Lið á borð við Ungverjaland, Svíþjóð, Króatíu og Slóveníu berjast við Ísland um tvö sæti í undanúrslitunum.

Helsta óvissan um markvörsluna

Lindgren tekur undir að sem fyrr þá séu hins vegar markmannsmálin mesta spurningamerkið varðandi Ísland. Eins og Ólafur Stefánsson og félagar í sérfræðingateymi RÚV hafa rætt um þá virðist langt í næsta markvörð, á eftir þeim Viktori Gísla Hallgrímssyni og hinum fertuga Björgvini Páli Gústavssyni.

„Alltaf þegar við tölum um Ísland þá endum við á að tala um þetta. Þeir eru með Hallgrímsson en hvaða getustigi getur hann viðhaldið? Og hver er þá hinn kosturinn, er það Gústavsson? Já, þá er allt eins og það á að vera hjá Íslandi, haha,“ sagði Lindgren léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×