Menning

Baltasar Samper látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hjónin Baltasar Samper og Kristjana á frumsýningu Gerplu í leikstjórn sonar þeirra, Baltasars Kormáks, árið 2010.
Hjónin Baltasar Samper og Kristjana á frumsýningu Gerplu í leikstjórn sonar þeirra, Baltasars Kormáks, árið 2010.

Katalónsk-íslenski listmálarinn Baltasar Samper er látinn, 88 ára að aldri.

Ríkisútvarpið greinir frá andláti hans.

Baltasar Samper fæddist í Barselóna í Katalóníu á Spáni 9. janúar 1938 og ólst þar upp, sonur hjónanna Ramiro Bascompte de La Canal og Maríu Samper de Córdada. Baltasar stundaði nám við Listaháskólann í Barselóna og útskrifaðist þaðan sem myndlistarmaður með kennararéttindi árið 1961. 

Hann ferðaðist um alla Evrópu það árið og kom þá til Íslands þar sem hann dvaldi í átta mánuði og var á síldarveiðum. Hann fór þá í eins árs reisu um Evrópu til að kynna sér listasöfn álfunnar en sneri svo aftur til Íslands, kynntist þá konu sinni, Kristjönu Guðnadóttir Samper og bjó á Íslandi samfleytt frá 1963.

Baltasar var afkastamikill myndlistarmaður, hélt tugi einkasýninga og samsýninga hér á landi og kenndi við bæði Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskóla Reykjavíkur. Meðal þekktustu verka hans eru stórar freskumyndir sem hann málaði inni í Víðistaðakirkju og myndir á kirkjulofti Flateyjarkirkju sem sýna þætti úr atvinnulífi og sögu Flateyjarhrepps. 

Baltasar gerði jafnframt fjölda leikmynda fyrir Þjóðleikhúsið um árabil, myndskreytti fjölda námsbóka, skáldsagna og smásagna í Lesbók Morgunblaðsins og vann að tveimur bókum með rithöfundinum Jökli Jakobssyni, Síðasta skipi suður og Suðaustan fjórtán.

Baltasar lætur eftir sig eftirlifandi eiginkonu, Kristjönu Guðnadóttur Samper, og þrjú börn þeirra, Mireyu Samper, Baltasar Kormák og Rebekku Rán Samper, sem öll fetuðu listabrautina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.