Enski boltinn

Al­veg sama hvað Roy Keane hefur að segja

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Roy Keane og Michael Carrick virðast ekki vera miklir vinir.
Roy Keane og Michael Carrick virðast ekki vera miklir vinir.

Michael Carrick segir háværa umræðu í kringum Manchester United ekki trufla sig og ummæli Roy Keane bíta ekkert á hann.

Carrick er nýtekinn við starfi aðalþjálfara hjá Manchester United og Roy Keane er sparkspekingur hjá Sky Sports sem leggur mikla áherslu á Rauðu Djöflana.

Þeir voru báðir miðjumenn hjá Manchester United og eiga sér langa sögu.

Þegar Carrick kom fyrst til Manchester United frá Tottenham tók hann sér treyju númer 16, sem Roy Keane klæddist áður. Carrick átti eftir að vinna ensku úrvalsdeildina fimm sinnum og hampa Meistaradeildartitli, en hann sá liðið líka á niðurleið eftir að Sir Alex Ferguson hætti störfum.

Eftir slæmt tap í Evrópudeildinni árið 2014 fór Carrick í viðtal sem Roy Keane var mjög ósáttur með og gagnrýndi Carrick mikið fyrir. Svo slæm var gagnrýnin að eiginkona Carrick, Lisa, fór á Twitter til að verja sinn mann, sem Roy Keane rifjaði upp á dögunum þegar hann kallaði hana „kjaftfora“ í hlaðvarpsviðtali við Stick To Football.

Roy Keane sagði ýmislegt annað í þessu hlaðvarpsviðtali og gagnrýndi Carrick meðal annars fyrir að ráða Jonny Evans inn í þjálfarateymi sitt.

Keane verður svo með vini sínum og fyrrum liðsfélaga, Gary Neville, í settinu hjá Sky Sports í hádeginu í dag þegar Manchester United mætir Manchester City.

„Þeir eru að setja pressu á mig en ég finn ekki fyrir henni“ sagði Carrick.

„Fullt af fólki hefur skoðanir, sumir eru jákvæðir en aðrir ekki. Það skiptir mig engu máli. Ég er að einbeita mér að allt öðrum hlutum“ bætti þjálfarinn við.

Leikur Manchester United og Manchester City verður í beinni útsendingu á Sýn Sport klukkan 12:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×